Börn sem fæðast í efnaminni ríkjum heimsins eru 50 sinnum líklegri til að deyja á fyrsta mánuði lífs síns en þau börn sem fæðast í efnamiklum ríkjum. Um 7,000 nýburar deyja á hverjum degi út um heim allan. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem kynnt verður í dag.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að Ísland sé eitt öruggasta land í heimi til að fæða barn eða í 2. sæti á eftir Japan og á undan Singapúr sem er í 3. sæti. Börn sem fæðast í Pakistan, Afganistan og Miðafríkulýðveldinu eiga verstu lífslíkurnar.
Skýrslan er upphafið að alþjóðlegu átaki UNICEF sem hefur það markmið að vekja athygli á tíðni nýburadauða og krefjast aðgerða og umbóta fyrir hönd nýbura heimsins.
Verið er að bregðast fátækustu börnunum
Þrátt fyrir að stórlega hafi dregið úr barnadauða í heiminum hefur ójöfnuður enn mikil áhrif á lífslíkur barna á fyrstu dögum þeirra frá fæðingu. Samkvæmt UNICEF er mikið áhyggjuefni að ennþá deyja 7,000 nýburar á hverjum degi af orsökum sem auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir, með betra aðgengi að færu heilbrigðisstarfsfólki og grunnheilsugæslu á meðgöngu og við fæðingu.
„Tíðni nýburadauða eru gífurlegt áhyggjuefni, einkum meðal fátækustu ríkja heims“, segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Í ljósi þess að meirihluti þessara dauðsfalla er fyrirbyggjanlegur þá er augljóslega verið að bregðast fátækustu börnunum og þeim sem búa á jaðri samfélaga. Þar á ég til dæmis við dauðsföll af völdum sýkinga sem koma upp vegna slæms hreinlætis og vegna skorts á hreinu vatni í fæðingu.“
Flest dauðfalla má koma í veg fyrir
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að í efnaminni ríkjum heimsins er meðaltíðni nýburadauða 27 börn af hverjum 1000. Í efnamiklum ríkjum er sama dánartíðni 3 börn af hverjum 1000. Þar er einnig bent á að 8 af 10 hættulegustu stöðum í heiminum til að fæða börn eru í Afríku sunnan Sahara.
Meira en 80 prósent af dauðsföllum nýfæddra barna má rekja til fæðinga fyrir tímann, vandamála sem koma upp í fæðingu eða sýkinga á borð við lungnabólgu, heilahimnubólgu og blóðeitrunar, segir í skýrslunni. Flest þessara dauðsfalla má koma í veg fyrir með aðgengi að vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki ásamt hreinu vatni, sótthreinsun, ódýrum lyfjum, aðstoð við brjóstagjöf og með góðri næringu.
Ef dánartíðni nýfæddra barna á heimsvísu næði meðaltali hátekjuríkja fyrir árið 2030 væri hægt að bjarga lífi 16 milljón barna. Skortur á vel þjálfuðu heilbrigðisstarfsfólki og ljósmæðrum þýðir þó að á hverjum degi fá þúsundir verðandi mæðra og nýbura ekki þá aðstoð sem þau þurfa til að lifa af. Sem dæmi má nefna að í Noregi eru 218 læknar, hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem þjóna 10,000 manns á meðan hlutfallið er 1 á hverja 10,000 íbúa í Sómalíu.
Bergsteinn segir að þetta undirstriki ójöfnuðinn. „Konur eignast oft börn sín án nokkurrar aðstoðar fagfólks, sökum fátæktar, átaka og veikra innviða. Við höfum tæknina og þekkinguna sem þarf, en hún er utan seilingar fyrir þá sem verst standa.“
Ýmsar leiðir mögulegar til að hjálpa
Til þess að vekja athygli á tíðni nýburadauða og krefjast aðgerða fyrir hönd nýbura heimsins hefur UNICEF sett af stað alþjóðlegt átak sem hefst í dag. Með þessu átaki vill UNICEF senda brýn tilmæli til ríkisstjórna, heilbrigðisstarfsmanna, einkageirans og foreldra til að tryggja að fleiri ungabörn lifi af og dafni.
Með ákallinu felst krafa um að ná til allra barna með því í fyrsta lagi að ráða og þjálfa nægilegan fjölda lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra með sérfræðiþekkingu í mæðra- og nýburavernd og í öðru lagi að tryggja öllum verðandi mæðrum hagnýta og viðráðanlega heilbrigðisaðstöðu með hreinu vatni, sápu og rafmagni. Í þriðja lagi að veita öllum mæðrum og börnum þau lyf og aðbúnað sem þarf til að lifa af og dafna og í fjórða lagi að efla ungar konur og stúlkur, verðandi mæður og fjölskyldur þeirra til að krefjast umbóta og umönnunar.
Heimsforeldrar taka virkan þátt í baráttu UNICEF um allan heim, meðal annars á sviði mæðraverndar og heilsuverndar barna. Á Íslandi eru yfir 27.000 heimsforeldrar sem hjálpa UNICEF að þrýsta á um breytingar á heimsvísu.