Þau fjórtán aðildarfélög BHM sem gengu frá endurnýjun kjarasamninga við samninganefnd ríkisins á dögunum, hafa nú lokið atkvæðagreiðslu um samningana.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Í umfjöllun Ómars Friðrikssonar blaðamanns, kemur fram, að samningarnir hafi verið samþykktir í sumum tilvikum með naumum meirihluta. „Þannig voru samningarnir t.d. samþykktir með 52,3% greiddra atkvæða í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Í Félagi lífeindafræðinga samþykktu samningana 70,8% þeirra sem greiddu atkvæði. Þrjú aðildarfélög BHM sem vísuðu kjaradeilu sinni við ríkið til ríkissáttasemjara fyrr í vetur eiga enn ósamið. Kjarasamningar BHM félaganna eru til skamms tíma og renna út 31. mars á næsta ári,“ segir í umfjölluninni í Morgunblaðinu.
Í samningunum er kveðið á um að laun hækki um 2,21% afturvirkt frá 1. september og aftur um tvö prósent 1. júní. Þá fá félagsmenn sérstaka eingreiðslu, 70 þúsund krónur miðað við fullt starf 1. febrúar á næsta ári, að því er segir í Morgunblaðinu.