Forsendur kjarasamninga eru brostnar að mati ASÍ. Miðstjórn ASÍ fundar nú vegna málsins en samkvæmt ákvæði í samningunum koma þeir til endurskoðunar fyrir lok þessa mánaðar.
Í yfirlýsingu frá miðstjórninni segir að það sé mat ASÍ að óbreyttu „að forsendur um að launastefna kjarasamninganna hafi verið stefnumarkandi hafi ekki gengið eftir. Því er heimild til uppsagnar þeirra fyrir lok febrúar enn í gildi.“
Vegna þessarar stöðu hefur miðstjórn ASÍ ákveðið að boða til formannafundar aðildarfélaga sambandsins miðvikudaginn 28. febrúar þar sem farið verður yfir málið og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.
ASÍ lýsti því yfir á föstudag að það vildi að laun forseta, ráðherra, þingmanna, ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra í ráðuneytum yrðu lækkuð strax, um sem nemur þeirri útafkeyrslu sem sambandið telur að kjararáð hafi valdið með ákvörðunum sínum um hækkun kjara þessara æðstu stjórnenda ríkisins.
Þannig myndu laun þessara aðila fylgja eftir almennri launaþróun. ASÍ var þátttakandi í starfshópi sem skipaður var að forsætisráðherra til að fjalla um málefni kjararáðs, en stafshópurinn var sammála um að kjararáð hafi farið langt umfram viðmið rammasamkomulags aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda frá árinu 2015. Ákvarðanir þess hafi verið ósýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Starfshópurinn var einnig sammála um að leggja kjararáð niður og leiðrétta útafkeyrslu þess. ASÍ hins vegar vildi að það yrði gert strax.
Meirihluti starfshópsins vildi ekki framkalla lækkunina strax, heldur „frysta“ laun þeirra þar til þau nái viðmiðum rammasamkomulagsins.
ASÍ taldi að með því að frysta haldi þessi hópur ekki einasta „ofgreiddum launum“ heldur fái áframhaldandi ofgreiðslur þar til frystingunni líkur. Þegar upp væri staðið myndi útafkeyrsla kjararáðs kosta ríkissjóð um 1,3 milljarða.