Ríkisaðstoð Íslendinga var í kringum 77 milljónir evra árið 2016 og er það 18 prósent hækkun frá árinu áður. Þetta kemur fram í nýjustu samanburðarskýrslu Eftirlitsstofnunar EFTA um útgjöld til ríkisaðstoðar í ESA EFTA-ríkjunum, Íslandi, Liechtenstein og Noregi, sem birt var í dag. Þrátt fyrir þessa aukningu er hlutfall ríkisaðstoðar af landsframleiðslu fremur lágt á Íslandi og talsvert lægra en meðaltal ríkja Evrópusambandsins.
Ríkisaðstoð felst í opinberum stuðningi við viðskiptastarfsemi. Hún getur verið í formi fjárstyrkja, skattaívilnana, hagstæðra lána, ábyrgða eða fjárfestinga sem ekki eru á markaðskjörum. Ríkisaðstoð er helst veitt í formi skattaívilnana og undanþága frá almennu tryggingargjaldi allt að 70 prósent, jafnframt því sem veittir eru styrkir.
Þrátt fyrir aukningu frá árinu 2015 þá er Ísland fyrir neðan meðaltal ríkja í Evrópusambandinu. Mest ríkisaðstoð á Ísland fer í rannsóknir og þróunar- og nýsköpunarverkefni og segir í skýrslunni að vel sé gert í þeim málum miðað við í öðrum Evrópulöndum. Einnig sé aðstoð til menningarmála yfir meðaltali á Íslandi.
Noregur er töluvert fyrir ofan meðaltalið en Liechtenstein situr í botnsætinu með hvað minnsta ríkisaðstoð af ríkjum Evrópulandanna.
Ríkisaðstoð nauðsynleg til margra hluta
Til samanburðar jukust útgjöld Íslands til ríkisaðstoðar um 10,5 prósent árið áður. Aukninguna árið 2015 mátti einnig helst rekja til ríkisaðstoðar sem Ísland veitti til verkefna á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Rannsóknasjóður Rannís og tæknisjóður Rannís fengu viðbótarframlög og einnig var ríkisaðstoð til byggðaþróunar aukin.
ESA framfylgir reglum EES samningsins en er samtímis eina stofnunin sem getur veitt undanþágur til ríkisaðstoðar. Viðurkennt er að ríkisaðstoð geti verið nauðsynleg til að standa vörð um innlend stefnumið, svo sem markmið um græn hagkerfi, stuðning við nýsköpun og til að tryggja að almannaþjónusta sé veitt. Hlutverk ESA er að yfirfara hvort áformuð ríkisaðstoð sé í samræmi við þær kröfur sem gera ber á Evrópska efnahagssvæðinu til að ríkisaðstoð teljist heimil og sé veitt án þess að skekkja samkeppnisskilyrði. Að slíkum skilyrðum uppfylltum getur ESA veitt undanþágu. Ríkjum EFTA ber að tilkynna ríkisaðstoð til ESA fyrirfram til samþykkis nema ef verkefni sem nýtur opinbers styrks fellur undir reglugerðina um hópundanþágur.
Samanburðarskýrslan er birt árlega og sýnir þróun ríkisaðstoðar í EFTA-ríkjunum sem og almennt á Evrópska efnahagssvæðinu.