Samkomulag hefur náðst á milli skiptastjóra þrotabús United Silicon og Arion banka um að bankinn fái að ganga að sínum veðum og taka yfir allar helstu eignir félagsins.
Nýtt félag verður stofnað um starfsemi kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Markmið Arion banka er að vinna að úrbótum á verksmiðjunni og selja hana eins fljótt og auðið er.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Arion banka.
Nú þegar hefur Arion banki afskrifað tæplega 5 milljarða vegna verkefnisins, en heildarskuldbindingar, sem komust í uppnám með þroti félagsins, námu um 10 milljörðum.
Undanfarna mánuði, á greiðslustöðvunartímanum, tók Arion banki að mestu yfir eignarhaldið og sá um að greiða það sem þurfti að greiða, þar á meðal laun starfsmanna.
Áhugi á verksmiðjunni hefur verið þó nokkur, af því er fram hefur komið í uppgjörstilkynningum frá bankanum.