Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir það vera mikil vonbrigði að eiga ekki sæti á framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. „Enginn getur gengið að neinu vísu í pólitík. Góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefur litla þýðingu, þegar leikreglum er breytt og uppstillingarvaldið sett í fárra hendur,“ segir Áslaug í stöðuuppfærslu á Facebook sem hún birti í dag.
Áslaug segir að hún hafi óskað eftir því að skipa 2. sætið á lista flokksins þrátt fyrir að hún hafi vitað að hún hefði ekki stuðning meirihluta kjörnefndar „nema nýr leiðtogi styddi þá tillögu“. Svo hafi ekki verið. Leiðtogi Sjálfstæðisflokks í komandi borgarstjórnarkosningum verður Eyþór Arnalds.
Áslaug segir að hún muni að sjálfsögðu sitja út kjörtímabilið og vinna að málum áfram. „Mér líst vel á nýju konurnar á framboðslistanum og hef reyndar heyrt að þær séu skoðanasystur mínar í mörgum málum. Vonandi munu þær fylgja skoðunum sínum eftir og kanna öll mál með opnum huga. Flokkurinn þarf ekki á því að halda að allir séu steyptir í sama mót.
Í komandi kosningabaráttu þurfa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins að byggja ofan á þetta fylgi til að ná settu marki. Öll skilyrði fyrir góðum árangri eru til staðar. Ég óska þeim alls hins besta í þeirri baráttu.“
Kæru vinir, enginn getur gengið að neinu vísu í pólitík. Góður stuðningur í hefðbundnum prófkjörum hefur litla þýðingu, ...
Posted by Áslaug Friðriksdóttir on Friday, February 23, 2018
Endanlegur listi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, var kynntur í gær. Kjarninn hafði áður greint frá því að Marta Guðjónsdóttir væri eini borgarfulltrúinn sem tekur sæti á lista flokksins af sitjandi borgarfulltrúum, og því er endurnýjun á listanum mikil.
Eyþór Arnalds leiðir listann og er Hildur Björnsdóttir í öðru sæti. Sjá má lista yfir 11 efstu sæti flokksins hér að neðan, og póstnúmer heimilisfangs hvers frambjóðanda, hér að neðan.
- Eyþór Laxdal Arnalds framkvæmdastjóri 101
- Hildur Björnsdóttir lögfræðingur 107
- Valgerður Sigurðardóttir skrifstofu og þjónustustjóri 112
- Egill Þór Jónsson Teymisstjóri hjá velferðarsviði Reykjavíkur 111
- Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi og kennari 101
- Katrín Atladóttir forritari 105
- Örn Þórðarson framhaldsskólakennari og varaborgarfulltrúi 105
- Björn Gíslason varaborgarfulltrúi 110
- Jórunn Pála Jónasdóttir lögfræðingur 109
- Alexander Witold Bogdanski viðskiptafræðingur 112
- Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir sálfræðinemi 101
Sveinn H. Skúlason, formaður kjörnefndarinnar, segir í samtali við mbl.is að það hafi verið vonbrigði að listinn hafi lekið út áður en að hann var staðfestur. Eðlilega séu skiptar skoðanir um listann og að gengið hafi verið framhjá tveimur sitjandi borgarfulltrúum, Áslaugu og Kjartani Magnússyni. „Ég er þeirrar skoðunar að þarna sé á ferðinni mjög flottur listi. En ég viðurkenni alveg að þarna er ákveðið reynsluleysi af borgarmálunum, það er ákveðin áhætta í þessu en hins vegar hefur þetta fólk reynslu annars staðar frá.[...]Knattspyrnustjóri, hann velur ekki bara stjörnur í hópinn sinn. Hann reynir að velja liðsmenn sem vega hvora aðra upp og geta unnið saman. Stjörnurnar eru góðar með en það er liðsheildin sem gildir,“ segir Sveinn við mbl.is.