Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu verður í kjöri til nefndarinnar en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, hefur veitt Braga leyfi til eins árs frá embætti forstjóra Barnaverndarstofu en nái Bragi kjöri lætur hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu þar sem áhersla er lögð á að nefndarmenn séu óháðir barnverndaryfirvöldum í einstökum ríkjum SÞ.
Segir í tilkynningunni að staða Braga sem frambjóðanda Íslands sé talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.
Ekki náðist í Braga við vinnslu fréttarinnar.
Kosið á tveggja ára fresti
Kosið er í nefndina á tveggja ára fresti, níu fulltrúar í hvert sinn. Hver fulltrúi er kosinn til fjögurra ára í senn. Næsta val fulltrúa í nefndina fer fram þann 29. júní næstkomandi. Utanríkisráðuneytið mun stýra kosningabaráttu vegna framboðs fulltrúa Íslands með milligöngu fastanefndarinnar í New York.
Norðurlöndin telja mikilvægt að eiga rödd á vettvangi Barnaréttarnefndarinnar og síðastliðin átta ár hefur Noregur átt þar fulltrúa; Kirsten Sandberg, lögfræðing og sérfræðing í réttindum barna. Hún mun ekki gefa kost á sér áfram og hingað til hefur ekkert Norðurlandanna skilað inn framboði. Frestur til þess rennur út í lok apríl.
Segir í tilkynningunni að samhliða undirbúningi vegna framboðs síns muni Bragi sinna afmörkuðum verkefnum í velferðarráðuneytinu sem snúa að tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi. Sé þar einkum horft til þess að tryggja börnum og fjölskyldum þeirra sem skjótasta íhlutun og stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu þjónustunnar þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna hverju sinni.
Eftirlit með barnaverndarstarfi endurskoðað
Eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu verður endurskoðað og ráðist í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verða settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.
Þetta kemur fram í frétt velferðarráðuneytisins í dag.
Markmiðið er að efla og þróa barnaverndarstarf í landinu og styrkja stjórnsýslu málaflokksins, samkvæmt fréttinni. Frumvarp til laga um eftirlit með barnavernd er komið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Hluti þessara verkefna verður á höndum nýrrar gæða- og eftirlitsstofnunar sem tekur til starfa innan velferðarráðuneytisins á næstu vikum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, fundaði í dag með formönnum barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs og kynnti þeim hinar áformuðu breytingar en þeim er ætlað að byggja upp traust innan málaflokksins.
Segir ennfremur að formenn barnaverndarnefndana hafi leitað til velferðarráðuneytisins síðastliðið haust vegna samskipta við Barnaverndarstofu og forstjóra hennar og lagt fram umkvartanir þar að lútandi. Velferðarráðuneytið hafi tekið þær til efnislegrar umfjöllunar sem nú er lokið og hafi niðurstöðurnar verið kynntar aðilum málsins.
Vilja endurheimta traust
Ráðherra segir að fyrirhugaðar breytingar á sviði barnaverndar séu að hluta til liður í viðbrögðum ráðuneytisins til að endurheimta traust í kjölfar fyrrnefndra umkvartana en þeim sé einnig ætlað að bæta stjórnsýslu málaflokksins og stuðla að þróun nýrra úrræða í barnavernd:
„Einstaklingar og stofnanir sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar verða að geta unnið saman á grundvelli trausts og trúnaðar og fá ef nokkur viðfangsefni stjórnsýslunnar eru mikilvægari og viðkvæmari en þessi. Eftir viðræður við formenn barnaverndarnefndanna og forstjóra Barnaverndarstofu tel ég ljóst að öllum sem hlut eiga að máli sé ljós ábyrgð sín hvað þetta varðar og vilji leggja sitt af mörkum þannig að góður friður skapist og skilyrði fyrir fagleg vinnubrögð verði sem best,“ sagði ráðherra að loknum fundinum í dag.
Þá hefur félagsmálaráðherra ákveðið að ráðast í ítarlega skoðun á þjónustu við börn með það meginmarkmiði að tryggja skjóta íhlutun og stuðla að samfellu í þjónustunni þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna. Þessi vinna mun nýtast við yfirstandandi endurskoðun barnaverndarlaga sem kveðið er á um í framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.