Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur, að undangengnu samráði við ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og ríkisstjórn, fallist á tillögu Bankasýslu ríkisins um sölu á 13 prósent hlut ríkissjóðs í Arion banka til Kaupskila ehf., dótturfélags Kaupþings ehf., fyrir 23,4 milljarða króna.
Salan fer fram á grunni kaupréttar sem samið var um í hluthafasamkomulagi íslenska ríkisins og Kaupþings frá árinu 2009. Kjarninn greindi fyrst frá því að kauprétturinn hefði verið virkjaður 13. febrúar síðastliðinn.
Í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að verðið sé mjög ásættanlegt. „Ávinningur af fjármögnun ríkisins á Arion banka í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008 felst í ávöxtun eiginfjár og hreinum vaxtatekjum vegna víkjandi lána sem ríkissjóður veitti Arion og bankinn hefur endurgreitt. Auk þess fær ríkissjóður verulegar tekjur vegna stöðugleikaframlaga Kaupþings, þ.e. vegna skuldabréfs Kaupþings, annarra eigna og áætlaðra tekna samkvæmt afkomuskiptasamningi.“ Samtals sé áætlaður heildarávinningur ríkisins vegna fjárhagslegra hagsmuna í Arion og samskipta við Kaupþing metinn á ríflega 150 milljarða króna.
Í fréttinni segir að í hluthafasamkomulaginu sé kveðið á um hvernig kaupréttarverðið skuli reiknað út. „Verðið miðast við að hlutafjárframlag ríkisins í bankanum beri ávöxtun sem jafngildir fjármagnskostnaði ríkissjóðs af um 9,9 ma.kr. hlutafjárframlagi að viðbættu 5% álagi á því tímabili sem ríkissjóður var eigandi að hlutum í bankanum. Til frádráttar kaupréttarverðinu komu arðgreiðslur sem ríkissjóður hefur fengið sem eigandi að bankanum á tímabilinu, en þær námu 2,7 ma.kr. Til viðbótar þessum arðgreiðslum fær ríkissjóður nú 23,4 ma.kr. vegna kaupréttarins, eða samtals 26,1 ma.kr.
Bankasýslan aflaði staðfestingar endurskoðunarfyrirtækisins Grant Thornton á útreikningi kaupverðsins samkvæmt kaupréttarákvæðunum. Að mati Bankasýslunnar er ávöxtun ríkissjóðs, sem lögð er til grundvallar útreikningi á kaupréttarverðinu, góð bæði með tilliti til vaxta og áhættuálags. Útreikningar sýna að árleg meðalnafnávöxtun ríkisins á hlutafjárframlaginu til Arion banka, allt frá árinu 2008, er um 10,8%.
Með þessum málalyktum er ríkissjóður ekki lengur hluthafi í Arion banka. Stjórnvöld munu áfram gæta hagsmuna ríkissjóðs gagnvart bankanum og sölumeðferðar á honum á grundvelli stöðugleikasamninga. Má í því sambandi nefna að ríkið hefur mikla hagsmuni af farsælli sölu Arion banka því slíkt hámarkar virði afkomuskiptasamnings sem er hluti stöðugleikasamninga. Það er mat stjórnvalda að niðurstaðan sé ríkissjóði hagfelld og að hún samrýmist vel áformum ríkisstjórnarinnar um að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum.“