Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst leggja það til við forseta Íslands að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra verði settur ráðherra til að fara með tiltekin mál á ábyrgðarsviði Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra er varða Landvernd á þeim grundvelli að hann sé vanhæfur til að fara með málin. Guðmundur hefur ákveðið að víkja á grundvelli stjórnsýslulaga, sem kveða á um að ef fyrir hendi eru aðstæður sem séu til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu beri honum að víkja, þar sem hann hafi á þeim tíma sem málin bárust ráðuneytinu gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins.
Um er að ræða fjögur mál:
- Erindi Landverndar, dags. 23. maí 2017, þar sem skortur á eftirliti Umhverfisstofnunar með framkvæmdum Landsnets hf., við lagningu háspennulínu frá Kröflu, Þeistareykjum að Bakka, er kærður.
- Erindi Landverndar, dags. 12. september 2017, þar sem farið er fram á að umhverfis- og auðlindaráðuneytið fjalli um lögmæti álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar.
- Umsóknir Landverndar til umhverfis- og auðlindaráðuneytis um verkefnastyrki, dags. 18. – 22. nóvember 2017, ásamt umsóknum annarra aðila um styrkina.
- Erindi nokkurra eigenda Reykjahlíðar í Mývatnssveit, dags. 8. desember 2017, um fyrirhugaðar friðlýsingar á jörðinni.
Ekki er um að ræða mál sem snýr að fyrrverandi aðstoðarmanni Guðmundar, Sifjar Konráðsdóttur, sem hætti á dögunum. Þar hefur Umhverfisstofnun sent ráðuneytinu friðun jarðarinnar Hóla í Öxnadal. Sif er eigandi jarðarinnar ásamt maka sínum. Þau fóru fram á að jörðin yrði friðlýst, en þau hafa stundað skógrækt og fleira á jörðinni. Vísir greindi fá málinu um daginn en ástæða þess að þau fóru fram á firðlýsingu er meðal annars til að torvelda lagningu Blöndulínu 3 sem á að fara yfir jörð þeirra. Þau hafa kært og gert athugasemdir við lagningu línunnar allt frá árinu 2013.
Í samtali við Vísi sagðist Sif ekki telja að Guðmundur væri vanhæfur til að taka ákvörðun um friðlýsinguna þó hún væri þá aðstoðarmaður hans og þannig undirmaður hans.