Líf Magneudóttir mun leiða lista Vinstri grænna í Reykjavík. Hún var ein í framboði í oddvitasætið í rafrænu forvali flokksins sem fram fór í dag og hlaut 401 atkvæði. Valið var í fimm efstu sætin á listanum en í kjölfarið mun uppstillingarnefnd stilla upp þeim sem á eftir efstu fimm koma.
Í öðru sæti hafnaði núverandi varaborgarfulltrúi flokksins, Elín Oddný Sigurðardóttir en auk hennar bauð sig fram í annað sætið Gústaf Adolf Bergmann Sigurðarson, doktorsnemi í heimspeki. Elín Oddný hlaut 331 atkvæði í 1. til 2. sætið. Gústað hlaut 99 atkvæði.
Í þriðja sæti er Þorsteinn V. Einarsson, deildarstjóri unglingastarfs í félagsmiðstöð með 164 atkvæði í 1. til 3. sæti. Þar á eftir komu þau Hreindís Ylva Garðarsdóttir Holm, leikkona, í 4. sæti og René Biasone, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, í 5. sæti.
Alls tóku 493 þátt í forvalinu en á kjörskrá voru félagar í Vinstri grænum sem skráð voru fyrir 14. febrúar 2018.
Næstur var Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson með 181 atkvæði í 1. til 5. sæti. Þar á eftir kom Björn Teitsson, Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, Hermann Valsson, Ragnar Karl Jóhansson og Jakob S. Jónsson.