Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata sagði reglur í íslensku samfélagi ekki gilda um æðstu lög samfélagsins og æðstu valdhafa á Íslandi. Þetta sagði Þórhildur í Silfrinu á RÚV í dag.
Hún vísaði í nýbirtar niðurstöður Transparency International þar sem Ísland er spilltasta ríki Norðurlandanna og sagði niðurstöðuna meðal annars skýrast af því að ráðherrar þjóðarinnar séu aldrei látnir sæta afleiðingum né heldur þingmenn.
„Nú er rökstuddur grunur uppi um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé. Og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn í þeim efnum,“ sagði Þórhildur og bætti við að hún myndi aðeins eftir einu tilfelli þar sem rannsókn hafi verið sett af stað á spillingarmáli stjórnmálamanns á Íslandi og það hafi verið mál Árna Johnsen en hann var árið 2003 dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir fjárdrátt og umboðssvik í opinberu starfi, mútuþægni og rangar skýrslur til yfirvalda.
„Við erum samt með fjármálaráðherra sem var í Panamaskjölunum og höfum rökstuddan grun til þess að hugsa það að hann hafi ekki gefið rétt upp til skatts. Við höfum líka uppi rökstuddan grun uppi um það að hann hafi misbeitt opinberu valdi til eigin hagsmuna, til þess að hagnast sínum flokki með því að stinga skýrslum sem voru óþægilegar fyrir kosningar undir stól, til þess að hagnast sinni eigni fjölskyldu með því að hafa bein áhrif á skattrannsóknarstjóra þegar hún var að reyna að kaupa gögn, sömu gögn og Panamaskjölin bara rétt fyrir það, sagði Þórhildur og sagði þannig uppi rökstuddur grunur um að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra, hafi framið refsivert athæfi en enginn taki sig til og rannsaki það.
„Við höfum rökstuddan grun um að dómsmálaráðherrann hafi misbeitt opinberu valdi fyrir sína eigin hagsmuni, í uppreist æru málinu, í Landsréttarmálinu, en það er enginn sem tekur sig til og rannsakar það vegna þess að viðhorfið hér er að æðsta lag samfélagsins sé hafið yfir lögin sem að við hin erum látin fylgja.“
Þórhildur sagði almenning látinn sæta mjög ströngum reglum, gerðar séu skattrannsóknir á þeirra högum, mál bótaþega séu rannsökuð ofan í kjölinn þegar einhver minnsti grunur sé uppi um að þeir séu að svíkja út opinbert fé.
„Hvað við gerum þegar kemur að því að við höfum minnstu grunsemd um að hinn almenni borgari hafi brotið einhverja reglu sem fylgja okkar samfélagssáttmála. En þegar við tölum um æðstu ráðamenn þjóðarinnar, þingmenn, ráðherra, forstöðumenn, við sjáum það líka endurtekið að þeir sem eru í æðstu stöðum í stjórnsýslunni þeim er verðlaunað líka fyrir það að brjóta reglur, þeir sæta engum afleiðingum.“ Hún nefndi sem dæmi Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu, sem hún sagði hafa setið undir ítrekuðum kvörtunum frá barnaverndarnefndum sem undir hann heyra.
„Um ófagleg vinnubrögð, um óeðlileg afskipti, og um bara mjög vandræðaleg og erfið mál fyrir hann. Og honum er verðlaunað með að senda hann til barnaverndarnefnda Sameinuðu þjóðanna og ísland ætlar að fara að leggja peninga í kosningabaráttu fyrir þennan mann til að taka þátt í barnaréttarstarfi Sameinuðu þjóðanna sem ég kalla bara verðlaun fyrir vonda hegðun og á sama tíma losa hann út úr þessu vandamáli.“
Þórhildur sagði það endurtekið sjást að ef einhver brot eigi sér stað þá fylgi því engar afleiðingar fyrir æðstu lög samfélagsins en það gildi ekki um hina.