Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi velferðarráðherra, segir á Facebook síðu sinni í dag, að Ásmundur Einar Daðason, núverandi velferðarráðherra, hljóti að opinbera niðurstöðu á rannsókn velferðarráðuneytisins vegna kvartana barnaverndarnefnda höfuðborgarsvæðisins yfir störfum Braga Guðbrandssonar, fyrrum forstjórnar Barnaverndarstofu.
Síðastliðinn föstudag samþykkti ríkisstjórnin að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Bragi Guðbrandsson verður fulltrúi Íslands í kjöri til nefndarinnar, en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur Einar veitti Braga leyfi til eins árs frá starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. „Staða Braga sem frambjóðanda Íslands er talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði,“ segir í tilkynningu frá ráðuneyti Ásmundar Einars.
Í tilkynningunni er jafnframt tekið fram, að samhliða undirbúningi vegna framboðs síns muni Bragi sinna afmörkuðum verkefnum í velferðarráðuneytinu sem snúa að „tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi.“
Segir í tilkynningunni að þar sé einkum horft til þess að „tryggja börnum og fjölskyldum þeirra sem skjótasta íhlutun og stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu þjónustunnar þannig að hún mæti sem best þörfum barna og fjölskyldna hverju sinni,“ segir í tilkynningunni.
Þorsteinn segir að í ljósi alvarleika þess máls sem um ræðir, þá sé ekki hægt að fara leynt með niðurstöðu rannsóknar ráðuneytisins. „Félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hlýtur að opinbera niðurstöðu á rannsókn Velferðarráðuneytisins vegna kvartana barnarverndarnefnda höfuðborgarsvæðisins yfir störfum fyrrum forstjóra Barnaverndarstofu. Ráðherra hefur tilkynnt að forstjóri Barnaverndarstofu láti af störfum en njóti stuðnings ríkisstjórnarinnar í umsókn um starf á alþjóðavettvangi. Ekkert hefur verið látið uppi um niðurstöður í athugun ráðuneytisins. Umkvartanir nefndanna voru fjölmargar og alvarlegar. Þær snéru að óeðlilegum afskiptum forstjórans fyrrverandi af einstökum málum, sumum hverjum afar alvarlegum, og trúnaðarbresti sem komið hefði upp milli nefndanna og Barnaverndarstofu. Í ljósi alvarleika málsins er ráðherra vart stætt á því að fara leynt með niðurstöðu athugunar ráðuneytisins. Stuðningur ráðherra og ríkisstjórnarinnar við forstjórann fyrrverandi hlýtur að fela í sér stuðningsyfirlýsingu við þau vinnubrögð sem undan var kvartað. Þeirri spurningu er því ósvarað af hálfu ráðherra hvernig endurreisa eigi nauðsynlegan trúnað milli Barnaverndarstofu og barnaverndaryfirvalda á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorsteinn á Facebook síðu sinni.