Heiða Björg Hilmisdóttir núverandi varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi býður sig fram til áframhaldandi setu í embætti varaformanns, en kosið verður um forystu flokksins á landsfundi um helgina, 2. til 3. mars.
Í tilkynningu frá Heiðu segir að síðastliðið ár, frá því hún tók við embættinu, hafi verið krefjandi tími, en afar gefandi, enda sjaldan skemmtilegra í stjórnmálum en þegar samstaða og eindrægni ríkir, árangur starfsins verði sýnilegur og hreyfingin eflist.
„Ég er afar þakklát fyrir þennan tíma og það góða samstarf sem ég hef átt við Samfylkingarfólk um allt land og samverkafólk í forystu flokksins. Við eigum mikinn mannauð í Samfylkingunni.“
Heiða segir spennandi tíma framundan, áframhaldandi uppbygging Samfylkingarinnar undir forystu Loga Einarssonar, sem lifandi hreyfingar jafnaðarfólks á Íslandi og mikilvægar sveitarstjórnarkosningar, þar sem jafnaðarfólk verði að sækja fram um allt land.
„Ég er full bjartsýni á framhaldið og ég veit að hreyfing jafnaðarfólks á mikil sóknarfæri. Ég vill leggja mitt af mörkum til að við nýtum þau færi og óska því eftir áframhaldandi umboði sem varaformaður Samfylkingarinnar á komandi landsfundi.“