Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur þurft að afskrifa meðlagskröfur eftir gjaldþrot einstaklinga upp á tæpan milljarð króna eða 993 milljónir á síðustu fimm árum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en í fyrra voru afskriftirnar 407 milljónir króna. Meginástæða þessara miklu afskrifta er lagabreyting frá árinu 2010 þar sem fyrningartími styttist úr tíu árum í tvö ár.
Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur sent dómsmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf til að upplýsa um stöðuna og að ekkert lát virðist vera á umtalsverðri skerðingu á kröfueign sveitarfélaga vegna þessa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í febrúarmánuði greiða alls 11.233 manns ýmist áfallandi með- lög eða eldri meðlagsskuldir. Skylt er að greiða meðlag með börnum og unglingum þar til þau ná 18 ára aldri.