Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og einn varaforseta Alþingis, segir að samhljómur sé um það á meðal stjórnmálaflokka á þingi að birta allar upplýsingar um þingfarakostnað allra þingmanna tíu ár aftur í tímann. Á morgun verði birtur fastakostnaður frá áramótum á nýrri vefsíðu sem þá verður sett í loftið. Enn er verið að taka saman breytilegan kostnað sem til hefur fallið á þessu ári en hann verður birtur von bráðar.
Forsætisnefnd Alþingis fundaði klukkan 11:35 í morgun um aksturskostnað og annan þingfarakostnað þingmanna í morgun. Jón Þór segir að Píratar hafi viljað fá upplýsingar aftur til ársins 1995 um allan greiddan þingfarakostnað en að samhljómur hafi orðið um að gera það að minnsta kosti tíu ár aftur í tímann.
Jón Þór segir enn fremur að fjallað hafi verið um eftirlit forsætisnefndar með framfylgd skrifstofu Alþingis með lögum og reglum sem varða greiðslu kostnaðar vegna starfa þingmanna. Ljóst sé að forsætisnefnd hafi eftirlitsskyldu gagnvart þeirri framfylgd og því verði að rannsaka hvort lögum og reglum hafi verið framfylgt. Jón Þór segir að tilbúin séu drög að greinargerð um hver sú framfylgni hafi verið.
Þar sagði meðal annars að sá þingmaður sem fékk hæstu árlegu endurgreiðsluna vegna aksturskostnaðar í fyrra hafi fengið samtals rúmlega 4,6 milljónir króna endurgreiddar. Það þýddi að þingmaðurinn, sem síðar var opinberað að er Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks, fékk um 385 þúsund krónur á mánuði í endurgreiðslu úr ríkissjóði vegna keyrslu sinnar. Í svörum forseta var greint frá greiðslum til þeirra tíu þingmanna sem fengu hæstu endurgreiðslurnar vegna aksturs á undanförnum árum. Nöfn þeirra voru hins vegar ekki birt né er greint frá því hvaða kjördæmi þingmennirnir tilheyra, þar sem það er talið fara nærri persónugreinanlegum upplýsingum