Stjórnarþingmaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé vill að utanríkisráðherra kalli danska sendiherrann á teppið vegna fyrirætlana dönsku ríkisstjórnarinnar um að taka upp tvöfalt þyngri refsingar fyrir brot sem framin eru í skilgreindum vandræðahverfum í borgum og bæjum landsins. Í þessum hverfum, þar sem stór hluti íbúa eru undir fátæktarmörkum sem og eiga við margvísleg félagsleg vandamál að stríða, er glæpatíðni há. Vill ríkisstjórnin danska með þessu fækka glæpum á þessum svæðum.
Kolbeinn sagði í ræðu sinni þar sem störf þingsins voru til umræðu að vinur sé sá er til vamms segi. Fregnir hafi borist af því að eitt helsta vinaríki Íslands, Danmörk, sé með fyrirætlanir um að stigbreyta refsingum fyrir glæpi eftir því hvar þeir eru framdir. „Kannski þarf engan að undra að hverfin sem um ræðir eru hverfi sem oft hafa verið kölluð gettó eða fátækrahverfi eða eru í það minnsta þannig samansett að þau skera sig úr öðrum hverfum,“sagði Kolbeinn.
Hann sagði alla vera jafna fyrir lögum. Ekki eigi að skipta máli hvar fólk býr ef það misstígi sig á lífsins hálu braut. „Það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum. Ef við opnum þessar dyr, hvað ætlum við að gera næst? Mun þá litarháttur skipta máli? Kyn? Kynhneigð? Stjórnmálaskoðanir? Trú?“
Kolbeinn vísaði í grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra frá því í gær sem bar nafnið Mannréttindi eru hornsteinninn. Kolbeinn sagðist fagna þessari grein og spurði hvort þessar fregnir frá Danmörku séu ekki tilefni til að kalla sendiherra landsins á fund til að ræða mannréttindi og þá staðreynd að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum.