Samkvæmt samantekt fjármála- og efnahagsráðuneytisins er ávinningur ríkisins af endurreisn banka og grunni innlendra eigna Kaupþings, sem síðar varð Arion banka, um 151,1 milljarðar króna.
Þar af eru verðmæti vegna stöðugleikaeigna 139,9 milljarðar króna, að því er fram kemur í samantekt sem birt var á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag.
Þessar upplýsingar eru í samræmi við það sem áður hafði verið greint frá á vef Kjarnans, en í tilkynningu stjórnvalda eru atriðin dregin.
Eins og kunnugt hefur ríkið selt 13 prósent hlut sinn í Arion banka fyrir 23,4 milljarða króna, en það var gert eftir að Kaupskil, dótturfélag Kaupþings, ákvað að nýta sér kauprétt á hlutnum, á grundvelli hluthafasamkomulags frá árinu 2009, eins og Kjarninn greindi frá þegar það var að gerast, 13. febrúar síðastliðinn.
Nú er unnið að sölu á Arion banka í gegnum og útboð og skráningu. Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, í tveimur ítarlegum fréttaskýringum, þá hafa verið teiknaðar upp sviðsmyndir í kynningum, þar sem fram kemur að mögulegt sé að ná 80 milljörðum úr Arion banka í gegnium víkjandi skuldabréf og arðgreiðslur.
Ráðgjafar frá Kviku, sem ráðnir voru af Kaupþingi til að aðstoða við söluna á Arion banka í desember síðastliðnum, telja að allt of mikið af peningum sé inni í bankanum. Í kynningu sem þeir héldu fyrir nokkra íslenska lífeyrissjóði í janúar, þegar þeir reyndu að sannfæra sjóðina um að kaupa um fimm prósent hlut í Arion banka, kemur fram að eigið fé bankans sé svo mikið að svigrúm sé til greiðslu á yfir 80 milljörðum króna út úr bankanum ef ráðist verður í útgáfu víkjandi skuldabréfa. Án þess sé svigrúmið samt 50 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna að eigið fé Arion banka um síðustu áramót var 225,7 milljarðar króna. Því er það mat ráðgjafanna að hægt sé að greiða rúmlega þriðjung alls eigin fjár Arion banka út, ef ráðist yrði í að gefa út víkjandi skuldabréf sem myndu í kjölfarið mynda hluta af eiginfjárgrunni bankans.
Kjarninn er með kynninguna, sem er kyrfilega merkt trúnaðarmál, undir höndum, eins og greint var frá fyrr í dag, í umfjöllum Kjarnans.