Fulltrúar Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og AFLs starfsgreinafélags hafa öll greitt atkvæði með því að segja upp kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Formannafundur ASÍ stendur nú yfir á Hótel Nordica.
Í samtali við Mbl.is segir Sigurður Bessason formaður Eflingar, sem er næst stærsta aðildarfélag ASÍ, að hann hafi gert grein fyrir atkvæði sínu á fundinum og viljað segja upp samningunum. Það gerði einnig Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri AFLs sem og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem er stærsta aðildarfélag ASÍ, hefur áður gefið það út að félagið muni kjósa með því að segja samingunum upp en stjórn og trúnaðarráð VR samþykktu á fundi sínum í gær ályktun þess efnis að forsendur kjarasamninga séu brostnar og að óbreyttu beri að segja þeim upp. Þannig er ljóst að fulltrúar meirihluta félagsmanna innan ASÍ eru á því að segja upp samningunum.
Í lok umræðu á formannafundinum verður viðhöfð leynileg rafræn atkvæðagreiðsla um uppsögn kjarasamninganna. Þar gildir að til að mynda meirihluta þarf bæði meirihluta þeirra fundarmanna sem fara með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa.
Alls sitja 59 formenn aðildarfélaga ASÍ fundinn sem er lokaður en búist er við því að fundurinn standi til þrjú.