54 mál hafa komið inn á borð lögreglunnar í Reykjavík vegna brota á nýjum lögum um heimagistingu. Af þessum 54 málum gerðu sumir hreint fyrir sínum dyrum en ekki er búið að ákveða hvort sekta eigi í þessum tilfellum. Þetta segir Sigurbjörn Jónsson varðstjóri hjá lögreglunni í samtali við Kjarnann.
Hann segir að sumir hafi vitað að þeir myndu ekki fá leyfi fyrirfram. Til stóð að loka eða innsigla íbúðunum ef ekki starfsemin myndi halda áfram án leyfis en Sigurbjörn segir að í langflestum tilfellunum hafi eigendur komið sínum málum á hreint. Engin íbúð hafi enn verið innsigluð og ekkert sé farið að beita sektum.
Ekki er búið að taka ákvörðun hvað verður gert í framhaldinu en að sögn Sigurbjörns er ekki mikill kraftur í þessu hjá lögreglunni enda sé þetta einungis hliðarverkefni hjá þeim. Hann sé einn að vinna í þessu hjá lögreglunni í hjáverkum.
Eins og fram kom í frétt Kjarnans í febrúar síðastliðnum hefur Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu rannsakað ábendingar um 200 til 300 mál sem tengjast heimagistingu og bíða þau nú frekari stjórnsýslumeðferðar. Þetta kemur fram í svari sýslumanns við fyrirspurn Kjarnans.
Í svarinu segir jafnframt að einhverjum þessara mála verði væntanlega lokið með stjórnvaldssektum en lögreglustjórar hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með rekstrarleyfisskyldum aðilum sem stunda skammtímaleigu í atvinnuskyni. Lögreglustjórar hafi ákæruvald í slíkum tilvikum.
Má leigja út í 90 daga án þess að hafa rekstrarleyfi
Ný löggjöf um heimagistingu tók gildi þann 1. janúar á síðasta ári. Í henni segir að einstaklingum sé heimilt að leigja út heimili sitt sem og aðra fasteign til persónulegra nota í allt að 90 daga á ári án þess að þurfa að sækja um sérstakt rekstrarleyfi.
Helstu markmiðin með nýrri löggjöf voru að bregðast við þróun í gistiframboði hér á landi og jafnframt að bregðast við miklum fjölda leyfislausrar gistingar. Í lögunum skýrð betur mörkin milli gististarfsemi í atvinnuskyni og tímabundinnar leigu af hálfu einstaklinga gegnum deilihagkerfið.
Á vefsíðu sýslumanns er ferlið útskýrt en þar segir að einstaklingur sem hyggst bjóða heimagistingu skuli tilkynna sýslumanni að hann hyggist leigja út lögheimili sitt eða eina aðra fasteign í sinni eigu. Við skráningu beri viðkomandi aðila að staðfesta að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Endurnýja þurfi skráningu á ári hverju og við lok hvers almanaksárs skuli aðili með skráða heimagistingu skila til sýslumanns yfirliti um þá daga sem húsnæði var leigt út ásamt upplýsingum um leigutekjur.
Sýslumaður skal afskrá heimagistingu verði aðili uppvís að því að leigja út húsnæði sitt í heimagistingu til lengri tíma en 90 daga á ári hverju eða fyrir hærri fjárhæð en kveðið er á um í lögum um virðisaukaskatt.