Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Stjórnmálafræðideild, mun ekki kenna áfangann Stjórnmálaheimspeki á komandi haustmisseri, þar sem hann verður í rannsóknarleyfi. Þetta kemur fram í frétt á síðunni Student.is.
Í desember sendu 65 nemendur kröfur til deildarinnar þess efnis að Hannes yrði formlega ávíttur, bók hans Saga Stjórnmálakenninga yrði aflögð sem kennslugagn og að nemendum yrði ekki lengur skylt að sitja áfangann. Á fundi Stjórnmálafræðideildar daginn eftir, þegar staðfesta átti kennsluskrá háskólaársins 2018-2019, las Baldur Þórhallsson, forseti deildarinnar, upp erindið.
Í fundargerðinni, sem Student.is hefur undir höndum, kemur einnig fram að fulltrúi nemenda hafi komið á framfæri kvörtunum nemenda en þær snúi að kennslubók námskeiðsins og kennsluháttum Hannesar sem að þeirra mati innihaldi kynþáttafordóma, kvenfyrirlitningu, fitufordóma og virðingarleysi við fólk með fatlanir. Lagði nemendafulltrúinn til að annar kennari væri fenginn til að kenna námskeiðið eða að nemendur fengju að velja sambærilegan áfanga í Heimspekideild.
Í kjölfarið var kennsluskrá BA-námsins samþykkt, fyrir utan námskeiðið Stjórnmálaheimspeki, þar sem málefni þess væru til skoðunar.
Málið var síðan sett í hendur forseta félagsvísindasviðs, Daða Más Kristóferssonar, þar sem það fór í hefðbundið ferli. Hann segir sviðinu skylt að rannsaka jafn alvarlegar ásakanir og þær sem nemendur komu fram með. Það hafi verið gert og niðurstaðan liggi fyrir en verði ekki gerð opinber. Daði Már vildi ekki svara fleiri spurningum þar sem honum væri óheimilt að tjá sig um málefni einstaka starfsmanna.
Til stóð að Hannes færi í rannsóknarleyfi á vorönn 2019 en nú liggur fyrir að leyfið verður tekið á haustönn á þessu ári. Hannes segir breytinguna ekkert hafa með kvartanir nemanda að gera. Þetta kemur fram í skriflegu svari hans til Student.is en Hannes birtir samskipti sín við blaðamann á bloggsíðu sinni.