Kjartan Magnússon, núverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið að sér að vera pólitískur ráðgjafi Eyþórs Arnalds, borgarstjóraefnis flokksins, fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.
Ef Eyþór verður borgarstjóri eftir kosningarnar þá mun Kjartan verða aðstoðarmaður hans í því embætti. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
Þar segir enn fremur að Janus Arn Guðmundsson hafi verið ráðinn framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan, sem verið hefur borgarfulltrúi í tæp 19 ár, bauð sig fram í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins en fékk einungis 480 atkvæði, eða 11,8 prósent greiddra atkvæða.
Auglýsing
Eyþór sigraði það kjör með tæplega 61 prósent atkvæða. Þá sóttist Kjartan eftir því að vera á framboðslista Sjálfstæðisflokksins en var hafnað af kjörnefnd.