Reglum ætti að koma á varðandi kosningabaráttu af hálfu þriðja aðila á Íslandi. Þetta kemur fram í skýrslu ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu sem birt var í gær.
Skýrsluhöfundar benda á að slík kosningabarátta lúti ekki lögum og umboð eftirlitsaðila sé ófullnægjandi. Einnig þurfi að koma reglu á kröfur um upplýsingar um útgjöld þriðja aðila.
„Á meðan auglýsingar þriðja aðila í hefðbundnum miðlum, eins og útvarpi, voru rekjanlegar til samtaka sem hægt var að staðfesta hver væru, voru auglýsingar á netinu aðallega nafnlausar,“ segir í skýrslunni. Þá hafi þessar auglýsingar aðallega verið neikvæðar og spjótum beint að ákveðnum flokkum eða stjórnmálamönnum.
Kjarninn fjallaði um fallsfréttir og upplýsingamengum í kjölfar kosninganna. Á samfélagsmiðlum dynja fréttir á fólki og getur reynst erfitt að greina á milli hvað sé satt og hvað ekki.
Falsfréttir eru, eins og nafnið gefur til kynna, fréttir sem ekki eru sannar. Þær staðhæfingar sem haldið er fram í þeim fréttum standast því enga skoðun og er rökstuðningur ýmist ekki til staðar eða einfaldlega rangur. Þegar falsfréttir eru farnar á flug er erfitt að stöðva útbreiðslu þeirra. Iðulega eru auglýsingar kostaðar af þriðja aðila í pólitískum tilgangi.
„Upplýsingamengun“ nýtt fyrirbæri
Skýrsla sem kom út á vegum Evrópuráðs í september síðastliðnum gefur góða mynd af svokallaðri upplýsingaóreiðu þar sem farið er í saumana á samfélagshjúpum og bergmálsherbergjum. Með tilkomu samfélagsmiðla hafa hlutirnir breyst til muna og segir í skýrslunni að nú séum við að horfa upp á algjörlega nýtt fyrirbæri sem lýsi sér í flóknum vef þar sem menguð skilaboð eru búin til, þeim dreift og þeirra neytt. Þau eru hýst á óteljandi vefþjónum og framleidd í feiknamiklu magni.
Í henni kemur enn fremur fram að erfitt sé að meta áhrif slíkrar „upplýsinga-mengunar“ á fréttaefni enda séu sérfræðingar einungis á byrjunarstigi að skilja hvernig hún virkar. Eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum og Brexit-kosningar í Bretlandi hefur fólk staðið á gati enda komu úrslitin mörgum gríðarlega á óvart.
Skýrsluhöfundar forðast að nota orðið falsfréttir vegna þess að þeir telja það ekki ná yfir fyrirbærið og segja þeir að staðan sé mun flóknari en svo. Einnig hafi stjórnmálamenn um allan heim notað orðið til að lýsa fréttum sem ekki eru þeim í hag.
Tilfinningar gegna lykilhlutverki
Gjaldfelling orða getur einmitt haft það í för með sér að upprunaleg merking brenglist og falskar fréttir verði til um falskar fréttir. Þess vegna er mikilvægt að nota orðið ekki um of og skella því á allar upplýsingar sem koma frá fréttastofum og miðlum.
Lykilatriðið, að mati skýrsluhöfunda, er að skilja hvernig samskipti virka á samfélagsmiðlum. Þau séu ekki einfaldlega upplýsingaskipti milli tveggja aðila. „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að tjáskipti hafa lykilhlutverki að gegna þegar koma á sameiginlegum skoðunum á framfæri. Ekki er aðeins um upplýsingar að ræða heldur drama - „framsetningu á þeim öflum sem takast á í veröldinni“,“ segir í skýrslunni.
Áhrifamesta efnið er það sem spilar á tilfinningar fólks, þar sem ýtt er undir kenndir á borð við yfirburðatilfinningu, reiði og hræðslu. Ef slíkar tilfinningar eru til staðar þá deilir fólk frekar efni sín á milli og innan síns hóps. Tilfinningaþrungið efni dreifist hraðar og betur þar sem læk, deilingar og athugasemdir leika stórt hlutverk. Þetta gerist þrátt fyrir mótaðgerðir til að sporna við fölskum upplýsingum.
Vinstri græn fengu slæma útreið
Fyrir síðustu kosningar í október bar nokkuð á auglýsingum sem kalla mætti kosningaáróður en töluvert var fjallað um þær í íslenskum fjölmiðlum í kjölfarið. Sumar þessara auglýsinga birtust á YouTube-myndböndum og var spjótunum helst beint að Katrínu Jakobsdóttur og flokknum hennar Vinstri hreyfingunni - grænu framboði. Ekki er vitað hverjir greiddu fyrir þessar auglýsingar en ljóst er að fylgjendur hægri vængs stjórnmálanna eru þar að baki. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, neitaði að flokkurinn stæði þar að baki þegar Vísir innti hann um svör.
Einnig bar á slíkum auglýsingum á Facebook þar sem kostaðar auglýsingar birtust fyrir augum fólks rétt fyrir kosningar. Fram kom í frétt Stundarinnar í byrjun nóvember að Facebook ætli ekki að leyfa slíkar auglýsingar en fyrirtækið ætli þó ekki að bregðast við fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar í vor. Framundan séu aðgerðir hjá Facebook til að knýja þá sem birta stjórnmálatengdar auglýsingar til þess að gefa upp hverjir greiða fyrir auglýsingarnar. Það sé reyndar lögbundið í Bandaríkjunum en á Íslandi séu ekki slík lög til staðar. Hins vegar séu hérlendis við lýði lög um fjármál stjórnmálaflokka sem knýja þá til að gefa upp hvaða lögaðilar styrkja þá beint. Þau lög nái þó ekki yfir umfangsmiklar, nafnlausar áróðursauglýsingar sem beint er gegn pólitískum andstæðingum.