Skatta-Kata

Mengaðar upplýsingar brengla sýn á veruleikann

Falsfréttir og kosningaáróður dynja á fólki í gegnum samfélagsmiðla og erfitt getur reynst að greina hið sanna og rétta frá hinu logna. Þessi menning hefur rutt sér til rúms á Íslandi og mikilvægt er að fólk sé meðvitað um hvað það les á netinu.

Gríðarlega mikið hefur verið fjallað um falsfréttir undanfarin misseri. Á samfélagsmiðlum dynja fréttir á fólki og getur reynst erfitt að greina á milli hvað sé satt og hvað ekki. Einnig hefur borið á kosningaáróðri en töluvert hefur verið fjallað um hann í fjölmiðlum eftir nýyfirstaðnar kosningar. En hvaðan koma þessar falsfréttir og kosningaáróðurinn og hvað er hægt að gera?

Falsfréttir eru, eins og nafnið gefur til kynna, fréttir sem ekki eru sannar. Þær staðhæfingar sem haldið er fram í þeim fréttum standast því enga skoðun og er rökstuðningur ýmist ekki til staðar eða einfaldlega rangur. Þegar falsfréttir eru farnar á flug er erfitt að stöðva útbreiðslu þeirra.

„Upplýsingamengun“ nýtt fyrirbæri

Skýrsla sem kom út á vegum Evrópuráðs í september síðastliðnum gefur góða mynd af svokallaðri upplýsingaóreiðu þar sem farið er í saumana á samfélagshjúpum og bergmálsherbergjum. Með tilkomu samfélagsmiðla hafa hlutirnir breyst til muna og segir í skýrslunni að nú séum við að horfa upp á algjörlega nýtt fyrirbæri sem lýsi sér í flóknum vef ­þar sem menguð skilaboð eru búin til, þeim dreift og þeirra neytt. Þau eru hýst á óteljandi vefþjónum og framleidd í feiknamiklu magni.

Í henni kemur enn fremur fram að erfitt sé að meta áhrif slíkrar „upplýsinga-mengunar“ á fréttaefni enda séu sérfræðingar einungis á byrjunarstigi að skilja hvernig hún virkar. Eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum og Brexit-kosningar í Bretlandi hefur fólk staðið á gati enda komu úrslitin mörgum gríðarlega mikið á óvart.

Skýrsluhöfundar forðast að nota orðið falsfréttir vegna þess að þeir telja það ekki ná yfir fyrirbærið og segja þeir að staðan sé mun flóknari en svo. Í öðru lagi hafi stjórnmálamenn um allan heim notað orðið til að lýsa fréttum sem ekki eru þeim í hag.

Áróður þeirra sem standa fyrir nanflausum níðsíðum á samfélagsmiðlum beinist ekki einvörðungu að andstæðingum í stjórnmálum. Hann beinist líka að fjölmiðlum sem fjalla um þá stjórnmálamenn sem nafnlausu síðurnar styðja.
Facebook-síðan Kosningar 2017

Tilfinningar gegna lykilhlutverki

Gjaldfelling orða getur einmitt haft það í för með sér að upprunaleg merking brenglist og falskar fréttir verði til um falskar fréttir. Þess vegna er mikilvægt að nota orðið ekki um of og skella því á allar upplýsingar sem koma frá fréttastofum og miðlum.

Lykilatriðið, að mati skýrsluhöfunda, er að skilja hvernig samskipti virka á samfélagsmiðlum. Þau séu ekki einfaldlega upplýsingaskipti milli tveggja aðila. „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að tjáskipti hafa lykilhlutverki að gegna þegar koma á sameiginlegum skoðunum á framfæri. Ekki er aðeins um upplýsingar að ræða heldur drama - „framsetningu á þeim öflum sem takast á í veröldinni“,“ segir í skýrslunni.

Áhrifamesta efnið er það sem spilar á tilfinningar fólks, þar sem ýtt er undir kenndir á borð við yfirburðatilfinningu, reiði og hræðslu. Ef slíkar tilfinningar eru til staðar þá deilir fólk frekar efni sín á milli og innan síns hóps. Tilfinningaþrungið efni dreifist hraðar og betur þar sem læk, deilingar og athugasemdir leika stórt hlutverk. Þetta gerist þrátt fyrir mótaðgerðir til að sporna við fölskum upplýsingum.

Upplýsingum um falsfréttir safnað saman

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur opnað fyrir samráð um aðgerðir til að sporna við fölskum fréttum og misvísandi upplýsingum. Hægt er að senda inn upplýsingar á vefsíðu þeirra frá 13. nóvember síðastliðnum til 23. febrúar 2018. Stjórnin mun birta niðurstöðurnar stuttu eftir að frestur rennur út og áhugavert verður að sjá þær.

Hún mun safna upplýsingum frá einstaklingum, samfélagsmiðlum, fjölmiðlum, háskólum, sem og opinberum stofnunum. Tilgangurinn er að kortleggja falsfréttir, skilgreiningar á þeim, mat á áhrifum þeirra og dreifingu og að koma á mótaðgerðum til að sporna við þeim og frekari dreifingu þeirra.

Stuðningsmenn Donalds Trump.
EPA

FBI rannsakar Rússa

Kosningaáróður er vel þekktur erlendis og eru níðauglýsingar algengar fyrir kosningar, til að mynda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Iðulega fyrir stórar kosningar sjást auglýsingar á samfélagsmiðlum og á streymiveitum á borð við YouTube, þar sem áróðursmyndböndum er dreift.

Erfitt hefur reynst að komast að uppruna flestra þessara myndbanda en þess má geta að alríkislögregla Bandaríkjanna hefur nú hafið rannsókn á aðild fjölmiðla á vegum rússneskra stjórnvalda í aðdraganda forsetakosninga þar í landi á síðasta ári. Grunur leikur á að ákveðnir aðilar hafi eytt miklum fjármunum í auglýsingar til að hafa áhrif á kosningarnar, Trump í vil.

Vandamálið er því augljóslega alþjóðlegt og breiðist út með aukinni tækni og notkun samfélagsmiðla.

Vinstri græn fengu slæma útreið

Fyrir síðustu kosningar í október bar nokkuð á auglýsingum sem kalla mætti kosningaáróður en töluvert var fjallað um þær í íslenskum fjölmiðlum í kjölfarið. Sumar þessara auglýsinga birtust á YouTube-myndböndum og var spjótunum helst beint að Katrínu Jakobsdóttur og flokknum hennar Vinstri hreyfingunni - grænu framboði. Ekki er vitað hverjir greiddu fyrir þessar auglýsingar en ljóst er að fylgjendur hægri vængs stjórnmálanna eru þar að baki. Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, neitaði að flokkurinn stæði þar að baki þegar Vísir innti hann um svör.

Einnig bar á slíkum auglýsingum á Facebook þar sem kostaðar auglýsingar birtust fyrir augum fólks rétt fyrir kosningar. Fram kom í frétt Stundarinnar í byrjun nóvember að Facebook ætli ekki að leyfa slíkar auglýsingar en fyrirtækið ætli þó ekki að bregðast við fyrir næstkomandi sveitarstjórnarkosningar í vor. Framundan séu aðgerðir hjá Facebook til að knýja þá sem birta stjórnmálatengdar auglýsingar til þess að gefa upp hverjir greiða fyrir auglýsingarnar. Það sé reyndar lögbundið í Bandaríkjunum en á Íslandi séu ekki slík lög til staðar. Hins vegar séu hérlendis við lýði lög um fjármál stjórnmálaflokka sem knýja þá til að gefa upp hvaða lögaðilar styrkja þá beint. Þau lög nái þó ekki yfir umfangsmiklar, nafnlausar áróðursauglýsingar sem beint er gegn pólitískum andstæðingum.

Myndbönd birtust á streymiveitunni YouTube fyrir kosningarnar þar sem formaður VG var uppnefndur.
Skjáskot úr YouTube-myndbandi

Stjórnmálaflokkar taki höndum saman

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, furðaði sig á árásarauglýsingum í kosningabáráttunni síðustu í pistli sem hann skrifaði á bloggsíðu sína. Hann segir slíkar auglýsingar viðbjóð og spyr hver réttlætingin sé. Hann sagði slík vinnubrögð bera öll merki fullkomins virðingarleysis fyrir bæði kjósendum og lýðræðinu sjálfu og að þar hafi verið höfðað til lægsta sameiginlega samnefnarans og þeirra sömu frumhvata sem leiða af sér einelti, ofbeldi og aðra mannvonsku.

Í lok pistilsins kallaði hann eftir því að forystufólk allra stjórnmálaflokka tæki höndum saman og hafnaði þessum vinnubrögðum alfarið og liti á þetta sem innra vandamál sem eigi að leysa.

Til þess að sporna við auglýsingum til dæmis fyrir næstu kosningar væri ráð að huga að lögum varðandi slíkar auglýsingar og hvort þeir sem standa að baki þurfi að gera grein fyrir aðkomu sinni. Einnig hvort stjórnmálaflokkar sammælist um að fordæma slíkar auglýsingar hvaðan sem þær koma, hægri eða vinstri. Í þriðja lagi að almenningur verði vakandi fyrir þeim upplýsingum sem berast í gegnum samfélagsmiðla, að trúa ekki hverju sem er og beita gagnrýninni hugsun á þær fréttir, auglýsingar og myndbönd sem poppa upp í frumskógi netsins.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar