Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að ef sýnt verði fram á að þingmaður hafi gefið út tilhæfulausan reikning til Alþingis, t.d. vegna aksturs vegna prófkjörsþátttöku, þá eigi viðkomandi að þurfa að axla ábyrgð. „Mér fyndist það vera sjálfsagt að fólk þyrfti að segja af sér í því tilviki. Það er ekki hægt að þvinga þingmenn til þess að gera að.“
Hann gagnrýnir orðræðu um að í kosningum felist einhverskonar syndaaflausn fyrir þingmenn. „Tæknilega séð gæti þingmaður farið á Kanarí í fjögur ár og ekki látið sjá sig á þingi. Að sjálfsögðu gerir það enginn og vonandi gerir það enginn í framtíðinni. En fólk getur sleppt því að mæta í vinnuna og tekið þessu í næstu kosningum. Mér finnst ofuráhersla á það að allar syndir verða afléttar í næstu kosningum ef þú kemst inn, ellegar ekki. Að við eigum að geyma allan dóm þangað til í næstu kosningum, og svo þurfum við ekkert að hugsa um það meira.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut þar sem fríðindagreiðslur til þingmanna eru til umfjöllunar. Hægt að sjá þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var hinn gestur þáttarins. Hann sagði að þingmenn væru komnir „djúpt inn á grátt svæði“ þegar þeir væru að láta Alþingi greiða fyrir aksturskostnað sinn í prófkjörum eða í aðdraganda kosninga. Eðlilegt væri að þeir sem yrðu uppvísir að slíku endurgreiddu þann kostnað og byðust sjálfir til að gera það.
Þá sé á leiðinni greinargerð frá skrifstofu Alþingis, sem fer með framkvæmd og eftirlit með greiðslum til þingmanna. Steingrímur segir að skrifstofan hafi stundum hafnað því að greiða reikninga og að þingmenn hafi þá unað því. „Það er misskilningur að þetta hafi verið sjálfvirkt.“