Ritstjórn Stundarinnar hlaut blaðamannaverðlaun ársins fyrir ítarlega umfjöllun um uppreist æru kynferðisbrotamanna, áhrif þess á fórnarlömb mannanna og tregðu stjórnvalda til upplýsingagjafar.
Til viðurkenningar fyrir framúrskarandi frammistöðu og gott fordæmi í íslenskri fjölmiðlun veitir Blaðamannafélag Íslands Blaðamannaverðlaun ársins á hverju ári. Í ár voru verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í Hörpu.
Viktoría Hermannsdóttir hjá RÚV hlaut verðlaun fyrir viðtal ársins fyrir viðtal við Árna Jón Árnason í þættinum Á ég bróður á Íslandi? Segir í umsögn dómnefndar að um sé að ræða einstaka og fallega innsýn í líf manns þegar hann fær þær fréttir að hann eigi hálfbróður og hittir í fyrsta sinn.
Alma Ómarsdóttir hjá RÚV hlaut verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins fyrir upplýsandi og heildstæða umfjöllun um hverjir hlutu uppreist æru, hverjir væru meðmælendur þeirra og áhrif uppreistarinnar á brotaþola.
Sunna Ósk Logadóttir hjá Morgunblaðinu hlaut verðlaun fyrir umfjöllun ársins fyrir að reifa skilmerkilega hvernig raforkuþurrð til náinnar framtíðar kallar á ákvarðanir um hvort draga þurfi úr notkun hennar eða virkja meira og ólík sjónarmið þar um.
Kjarninn óskar sigurvegurunum innilega til hamingju.