„Atkvæðagreiðslan í dag mun leiða í ljós hvort þingmenn taki sér stöðu sem fulltrúar samtryggingar stjórnmálastéttarinnar eða fulltrúar almennings,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata og einn flutningsmanna þingsályktunartillögu um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. Ástæðan er framganga hennar í Landsréttarmálinu svokallaða.
Í samtali við Kjarnann segir hún að Píratar taki hlutverki sínu sem eftirlitsaðili með framkvæmdarvaldinu alvarlega og hafi því kallað eftir afstöðu þingsins gagnvart því hvort það treysti dómsmálaráðherra sem braut lög við skipun dómara í Landsrétt. „Atkvæðagreiðslan fram undan mun gefa þingmönnum færi á að draga línu í sandinn og mun skýra hvort þingmenn standi undir ábyrgð og sinni eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu með framkvæmdavaldinu.“
Vantrauststillagan var lögð fram um miðnætti í gær og verður tekin fyrir klukkan 16:30 í dag. Fyrirkomulagið verður þannig að þingflokkarnir fá 12 til 15 mínútur hver til að ræða málið og er heimilt að skipta þeim tíma milli þingmanna sinna að vild. Ekki verða veitt sérstök andsvör en að loknum þeim umræðum fær hver flokkur 3 mínútur í lokinn til að binda enda á umræðurnar.
Umræðan mun því standa í um tvær klukkustundir og korter og atkvæðagreiðsla gæti hafist rétt fyrir kl. 19.00. Að svo búnu verða greidd atkvæði um tillöguna.
Katrín ber fullt traust til Sigríðar
Landsréttarmálið snýst um það að matsnefnd um hæfi umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt, nýtt millidómstig, lagði fram tillögu um 15 hæfustu einstaklinganna í fyrravor til að taka við 15 stöðum. Sigríður ákvað að breyta þeirri tillögu og færa fjóra af lista matsnefndarinnar en setja fjóra aðra í staðinn. Í desember 2017 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum með athæfi sínu í málum sem tveir mannanna sem höfðu verið færðir af listanum höfðuðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bótamál á hendur ríkinu.
Í nýlegri könnun sem Maskína vann fyrir Stundina kom fram að 72,5 prósent landsmanna vilja að Sigríður segi af sér embætti. Spurt var „Finnst þér að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra eigi að segja af sér ráðherradómi eða á hún að sitja áfram sem dómsmálaráðherra?“ Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist hins vegar á þingi í gær að hún beri fullt traust til allra ráðherra í ríkisstjórninni, þar á meðal Sigríðar.