Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis segist gera ráð fyrir að kosið verði um vantraust á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á næstum tveimur sólarhringum.
Hann segir í samtali við Kjarnann að hann sé nú að heyra í öllum aðilum vegna vantrauststillögu sem þingflokkar Pírata og Samfylkingar hafa lagt fram á hendur Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.
„Ég er bara í því núna að heyra í aðilum, flutningsmönnum þessarar tillögu, forsætisráðherra og öðrum og sjá hvenær við getum komið þessu að,“ segir Steingrímur.
Hann segir það skipta alla máli að klára þetta sem fyrst, en ganga þurfi úr skugga um að fullskipað sé í öllum flokkum. Vera kann að einhverjir séu til dæmis úti á landi og þá þarf að kalla þá þingmenn til baka.
„Það þarf líka að komast til dæmis að samkomulagi um ræðutíma og annað og síðan er hægt að kýla á þetta. Yfirleitt eru báðir aðilar sammála um að hafa svona ekki hangandi yfir sér.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður Pírata sendi yfirlýsingu í morgun um að hefð sé fyrir því að vantrauststillögur séu teknar á dagskrá þingsins við fyrsta tækifæri.
Kjarninn greindi frá því í gær að stjórnarandstöðuflokkarnir fimm hefðu allir tekið þátt í umræðu um að leggja fram vantrauststillögu á Sigríði vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu svokallaða. Þingflokksformenn þeirra funduðu í gærmorgun þar sem málið var rætt. Til stóð að annar fundur færi fram í dag, þriðjudag, þar sem þingflokksformenn og formenn stjórnarandstöðuflokkanna til að taka ákvörðun um hvort og þá hvenær tillaga um vantraust yrði lögð fram. Ljóst er að þau áform hafa breyst og nú hafa þingmenn tveggja flokka lagt fram vantrauststillöguna. Komist tillagan ekki á dagskrá á fimmtudag er ljóst að bíða verður eftir afgreiðslu hennar í nokkurn tíma, þar sem nefndarvika er á Alþingi í næstu viku og engir þingfundir haldnir.