Jeff Bezos, stofnandi og forstjóri Amazon, er ríkasti maður heims, samkvæmt nýjum lista Forbes fyrir auðugustu einstaklinga heimsins. Hann er sá fyrst í sögunni sem á eignir upp á meira en 100 milljarðar Bandaríkjadala, en næstur á eftir honum er nágranni hans við Lake Washington, á Seattle svæðinu, Bill Gates, stofnandi Microsoft.
Eignir hans nema um127,8 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 13 þúsund milljörðum króna. Ólíkt mörgum öðrum sem eru á listanum, eru eignir Bezos að langmestu leyti óskuldsettar. Yfir 90 prósent eigna hans eru í hlutabréfum í Amazon en hann á ennþá 17 prósent hlut í smásölu- og tæknirisanum.
Markaðsvirði Amazon hefur vaxið með ólíkindum hratt, frá því að Bezos stofnaði fyrirtækið árið 1994, þá sem netverslun með bækur. Fyrirtækið varð til eftir að hann ferðaðist þvert yfir Bandaríkin, frá New York til Seattle, eftir að unnið hjá vogunarsjóðum á Wall Street á árunum 1986 til 1994.
Í dag, tæplega aldarfjórðungi síðar, er Amazon virði 747 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 75 þúsund milljörðum króna.
Það er upphæð sem er 80 falt virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni, bara til að setja hana í samhengi við einhverja þekkta stærð í íslenskum veruleika.
Ef Bezos myndi selja hlutabréf sín í Amazon, á núverandi gengi, þá gæti hann staðgreitt allar fasteignir og lóðir á höfuðborgarsvæðinu, tvisvar sinnum, sé mið tekið af fasteignamati ríkisins fyrir árið 2018.
Virði allra fasteigna var tæplega 7.300 milljarðar en á höfuðborgarsvæðinu var það um 6 þúsund milljarðar.
Á undanförnu ári jókst virði Amazon um tæplega 60 prósent, og hefur vöxturinn í markaðsvirði verið stanslaus. Fjárfestar virðast horfa til þess að Amazon hafi mikla möguleika í sínu viðskiptlíkani, og að flestir geirar hagkerfa heimsins muni með einum eða öðrum hætti tengjast þessu síbreytilega og stækkandi fyrirtæki, sem nú er með um 400 þúsund starfsmenn, að langmestu leyti í Bandaríkjunum.