Ríkisendurskoðun ítrekar ekki ábendingu til utanríkisráðuneytisins um auglýsingaskyldu fyrir stöðu sendiherra, þar sem ráðuneytið lýsti sig ósammála því að afnema bæri undanþágu þar um.
Í nýrri eftirfylgnisskýrslu bendir stofnunin á að brugðist hafi verið við fjórum af fimm ábendingum hennar um rekstur og starfsemi sendiskrifstofa með viðunandi hætti.
Í skýrslunni segir að einnig sé litið til þess að frumvarp þess efnis að auglýsa eigi stöður sendiherra hafi ekki hlotið brautargengi á Alþingi. „Því sér Ríkisendurskoðun ekki tilgang með því að ítreka þá ábendingu en minnir á að auglýsingaskylda starfa stuðlar að auknu gagnsæi, jafnræði og vandaðri stjórnsýslu.“
Aðrar ábendingar, sem brugðist hefur verið við, lutu að því að koma þyrfti á sérstökum fjárlagalið fyrir fasteignaviðskipti sendiskrifstofa, ljúka úttekt á erlendum fasteignum ráðuneytisins, setja viðmið um lágmarksmönnun sendiskrifstofa og stuðla að jafnri stöðu kynjanna á sendiskrifstofum.