Launamunur kynjanna minnkaði á tímabilinu 2008 til 2016. Þetta kemur fram í rannsókn Hagstofunnar í samvinnu við aðgerðarhóp stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.
Konur voru að jafnaði með 6,6 prósent lægri laun en karlar árið 2008 en leiðréttur munur minnkaði í 4,5 prósent árið 2016.
Óskýrður launamunur var 4,8 prósent en skýrður launamunur 7,4 prósent á öllu tímabilinu 2008-2016. Skýrður launamunur segir til um hversu stór hluti launamunar skýrist af þeim skýringarþáttum sem lagðir eru til grundvallar í greiningunni en óskýrður stendur fyrir þann launamun sem ekki tókst að skýra.
Skipting tímabilsins 2008-2016 í þriggja ára tímabil leiðir í ljós stöðugt minnkandi launamun og fór óskýrði launamunurinn úr 4,8 prósent á árunum 2008-2010 í 3,6 prósent á árunum 2014-2016.
Í frétt Hagstofunnar segir að beita megi ýmsum tölfræðiaðferðum við mat á launamun karla og kvenna. Hins vegar er erfiðleikum bundið að finna hinn eiginlega launamun sem hægt er að rekja eingöngu til kyns enda eru óvissuþættir margir. Helst má þar nefna takmarkanir gagna, skýribreytur og forsendur sem lagðar eru til grundvallar tölfræðiaðferðum. Þeir fyrirvarar eiga við niðurstöður þessarar rannsóknar eins og um aðrar rannsóknir á þessu sviði.