Þrátt fyrir að Gary Cohn, aðalráðgjafi Donalds Trumps forseta, hafi sagt af sér, vegna ágreinings um tollamál og stefnu í alþjóðaviðskiptum, þá ætlar forsetinn að haldi áformum sínum til streitu.
Tollar á innflutt stál verða 25 prósent og tollar á innflutt ál 10 prósent. Samkvæmt umfjöllun New York Times er andstaðan við þessi áform mun meiri meðal Repúblikana en forsetinn reiknaði með.
Í umfjöllun New York Times er Cohn sagður hafa varað Trump við því að setja upp háa tolla á valdar vörur, með það að markmiði að fjölga störfum í Bandaríkjunum og efla bandaríska hagkerfið.
Cohn er sagður hafa marg fundað með forsetanum til að reyna að fá hann ofan af því að hækka tolla og grafa undan viðskiptasamböndum við önnur ríki. Hann er sagður hafa sagt Trump að þetta væri hættuspil, sem gæti leitt til þess að bandarískt efnahagslíf skaðaðist og alþjóðavæddur heimur viðskipta sömuleiðis.
Wait, now Gary Cohn is gone too? I can't keep up - the last time this many people fled the White House the British were burning it in 1814.
— Bill Maher (@billmaher) March 7, 2018
Nú þegar hafa komið fram viðvaranir frá bæði Kínverjum og Evrópusambandinu, um að ef gengið verði áfram þessa braut í tollastríði, þá verði Bandaríkjamönnum svarað. Tollar á ýmsar vörur sem Bandaríkjamenn flytja til bæði Evrópu og Asíu gætu þannig hækkað, með tilheyrandi skaða fyrir samkeppnishæfni fyrirtækja í Bandaríkjunum.
Trump er sagður ætla sér að grípa til víðtækra breytinga og hækka tolla á ýmsa fleiri geira, en útfærslur liggja ekki nákvæmlega fyrir.