Donald Trump Bandaríkjaforseti mun funda með Kim Jong Un, leiðtoga Norður-Kóreu, á næstu viku. Um þetta tilkynnti Hvíta húsið í gær, en Kim Jong Un hafði frumkvæði að því að bjóða Trump til viðræðna.
Umræðuefnið á fundinum verður kjarnorkuáætlun Norður-Kóreu og tilraunir með langdrægar flaugar, sem hafa verið harðlega gagnrýndar af alþjóðasamfélaginu og er landið nú beitt hörðum efnahagsþvingunum vegna þeirra.
Meðal þess sem efnahagsþvinganirnar ná til eru víðtækar aðgerðir til að sporna við innflutningi á olíu. Þessar aðgerðir hafa haft lamandi áhrif á efnahagslífið í Norður-Kóreu. Þó það teljist ekki þróað, á vestrænan mælikvarða, þá er landið háð olíu eins og önnur lönd, þegar kemur að framleiðslu og almennu gangverki í efnahagslífi.
Íbúar í Norður-Kóreu eru 25,3 milljónir.
Kim Jong Un talked about denuclearization with the South Korean Representatives, not just a freeze. Also, no missile testing by North Korea during this period of time. Great progress being made but sanctions will remain until an agreement is reached. Meeting being planned!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 9, 2018
Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa sagt aðgerðirnar, sem Sameinuðu þjóðirnar styðja, vera ígildi stríðsyfirlýsingar.
Tónninn í opinberum yfirlýsingum frá Norður-Kóreu hefur þó breyst mikið á skömmum tíma, og spila Ólympíuleikarnir í Suður-Kóreu þar mikla rullu. Eftir þá komust á viðræður á milli Norður- og Suður-Kóreu. Spennan í samskiptum þessara granna hefur minnkað mikið, og hafa þjóðirnar samþykkt að halda áfram viðræðum og samskiptum með það að markmiði að skapa betri samstarfsgrundvöll og tryggja frið.
Fundur Trumps og Kim Jong Uns mun marka tímamót, en yfirvöld í Suður-Kóreu hafa miðlað málum og áttu ríkan þátt í því að koma fundinum á, samkvæmt frásögn New York Times.