Ef lánsheimild sem íslenska ríkið veitir vegna gerðar Vaðlaheiðarganga verður nýtt að fullu, og lánið reiknað í samræmi við lög um ríkisábyrgðir, þá verður staða þess 33,8 milljarðar króna í byrjun maí 2021 þegar lánið er á gjalddaga.
Þetta yrði staðan ef göngin yrðu opnuð í árslok 2018, að verð í gegnum þau frá þeim tíma verði 1.250 krónur á hverja ferð án virðisaukaskatts, að öll umferð sem nú fer um Víkurskarð fari um Vaðlaheiðargöng og að öll viðbótarumferð miðað við háspá Vegagerðarinnar um umferð um Víkurskarð. Þá er gert fyrir að samið verði um áframhaldandi lánveitingu frá ríkissjóði með sömu vaxtakjörum til 35 ára með cash-sweep fyrirkomulagi.
Þetta kemur fram í svari Ríkisábyrgðarsjóðs við spurningu Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata og nefndarmanns í fjárlaganefnd, um hvernig lánið væri reiknað ef farið væri að lögum um ríkisábyrgðir. Ríkisábyrgðarsjóður tekur sérstaklega fram í svarinu að forsendur þess, sem lagðar séu til grundvallar útreikningi á stöðu lána og umferðarmagni, séu að mati sjóðsins „frekar óraunhæfar og allar niðurstöður ber að skoða í því ljósi“.
Þar segir: „Staða láns til VHG hf. miðað við lok febrúar 2018 með áföllnum vöxtum var 11,6 ma.kr. Þessi staða lánsins miðast við samtölu ádrátta og þeirra vaxta sem áfallnir eru á lánið. Upphaflega miðaðist lánið við gjalddaga 5.1.2018, sem síðar var breytt vegna erfiðleika við gangagröft til 1.5.2021. Miðað við upphaflegan gjalddaga og ávöxtunarferil óverðtryggðrar útgáfu ríkisins á markaði (ríkisbréf), voru áhættulausir óverðtryggðir vextir um 5% á þeim tíma er lánið var afgreitt. Með álagi vegna lánshæfismats CCC upp á 13,1% yrðu vextir af láni til VHG hf. á þeim tíma því 18,1%.“ Miðað við allar ofangreindar forsendur yrði staða framkvæmdalánsins alls 33,8 milljarðar króna þann 1. maí 2021, þegar lánir yrði á gjalddaga.
Mjög óraunhæfar forsendur
Ef stofnkostnaður við gerð ganganna yrði svo mikill þyrfti árleg umferð að vera um níu prósent umfram háspá Vegagerðarinnar til að göngin stæðu undir fjármögnunarkostnaði og endurgreiðslu þess láns sem ríkið veitti, samkvæmt svari Ríkisábyrgðarsjóðs.
Þar segir enn fremur að árleg aukning á umferð um níu prósent sé „mjög óraunhæf forsenda enda yrði meðaltalsumferð um göngin á dag miðað við heilt ár, svoköllum árdagsumferð, komin í 49.700 bíla á dag árið 2055 sem gæfi um 2.070 bíla á klukkustund.“
Björn Leví segir í tilkynningu til fjölmiðla að allar forsendur um gjaldheimtu og rekstrargrundvöll gagnanna hafi verið reiknaðar á miklu lægri vöxtum en lög um ríkisábyrgð segi til. Það hafi hann aldrei skilið og þess vegna farið fram á að lánið yrði reiknað ef farið yrði eftir lögum um ríkisábyrgð, enda liggi fyrir niðurstaða úttektarnefndar um að Vaðlaheiðargöng geti ekki talist einkaframkvæmd.
Hann telur því að ofangreind upphæð, 33,8 milljarðar króna, sé heildarkostnaðurinn við framkvæmdina og þá áhættu ríkisins sem ábyrgðaraðila fjármögnunar. „Það er kostnaðurinn sem framkvæmdaaðili hefði þurft að fjármagna hjá almennum fjárfestum. Það er kostnaðurinn sem framkvæmdin þarf að standa skil á ef verkið á að teljast einkaframkvæmd og réttlæta tilveru sína utan samgönguáætlunar.“
Átti að vera aðlaðandi fyrir fjárfesta
Íslenska ríkið ákvað á árunum 2009 og 2010 að kanna að ráðist yrði í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd. Leitað var til íslenskra lífeyrissjóða um að koma að fjármögnun verkefnisins en ekki náðist saman um slíkt. Því ákvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði til skamms tíma en síðar yrði leitað á almennan markað að langtímafjármögnun. Verkefnið átti að verða aðlaðandi fyrir fjárfesta m.a. vegna þess að fjármögnunin átti að verða rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds.
Mikil vandræði hafa hins vegar orðið á meðan að á framkvæmdinni hefur staðið vegna erfiðra jarðlaga og innrennsli á bæði heitu og köldu vatni.
Ríkisstjórn samþykkir frekari lánveitingar
Í mars í fyrra var greint frá því að það vantaði umtalsvert fé til að klára gerð Vaðlaheiðarganga. Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sagði þá að hann myndi beita sér fyrir því að ríkið myndi lána meira fé í framkvæmdina en að hann teldi ekki útilokað að eigendur Greiðrar leiðar kæmu að slíkri fjármögnun. Þeir höfnuðu því hins vegar algjörlega, en þeir hafa þegar lagt fram 236 milljónir króna í eigið fé inn í félagið.
Þess vegna ákvað ríkisstjórnin að ríkið myndi hækka lánsheimild Vaðlaheiðargangaum allt að 4,7 milljarða króna.
Úttektarskýrsla sem kynnt var í ágúst 2017, og unnin var að beiðni þáverandi ríkisstjórnar, komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin geti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd. Í raun sé hún ríkisframkvæmd þótt að upphaflega hefði hún ekki verið kynnt sem slík til að þurfa ekki að lúta forgangsröðun samgönguáætlunar. Frá því að lög um gerð ganganna voru sett hafi íslenska ríkið borið megináhættu af Vaðlaheiðargöngum í formi framkvæmdaláns til verksins.