Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir að ekki þurfi að koma neinum á óvart að hún hafi greitt atkvæði með vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Sigríði Á. Andersen í síðustu viku. Þetta kom fram í Víglínunni á Stöð 2 um helgina.
„Við verðum bara að segja eins og er að auðvitað tekur þetta á. Auðvitað tekur það á þegar tveir þingmenn í þingflokki eru á annarri línu en aðrir þingmenn og við þurfum bara að horfast í augu við það og ræða það opinskátt,“ segir hún þegar hún er spurð út í andrúmsloftið í flokknum. Hún sé aftur á móti ekki sammála því að ástæða sé fyrir því að kanna stöðu hennar sérstaklega, eða stöðu Andrésar Inga Jónssonar sem einnig greiddi atkvæði með tillögunni.
Hún segist ekki ætla að færa sig um set og að hún ætli sér að halda áfram að vera í Vinsti grænum. Hún styðji Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins, en áskilji sér rétt til að kjósa eftir sinni sannfæringu í ákveðnum málum eins og í þessu tilfelli.
Staða Sigríðar viðkvæm
„Þegar ég útskýrði mína afstöðu gagnvart þessu ríkisstjórnarsamstarfi þá var Sigríður og hennar embættisfærslur ein af þeim ástæðum sem ég tiltók sem voru þess valdandi að ég greiddi gegn ríkisstjórnarsamstarfinu,“ segir Rósa. Hún segir jafnframt að staða Sigríðar sé gríðarlega viðkvæm.
Hún telur að þingmenn ættu að temja sér það almennt að segja ekki eitt í dag og annað á morgun. „Við eigum að vera samkvæm sjálfum okkur í pólitíkinni og ég er að reyna það. Þetta rímar fullkomlega við mínar áherslur á þinginu í júní síðastliðnum,“ bætir hún við.
Rósa segist treysta ráðherrum VG fyllilega, enda hljómi fyrirætlanir þeirra í sínum málaflokkum vel, og muni hún styðja þær því þær séu góðar. „En ég er búin að útskýra mína afstöðu gagnvart þessu stjórnarsamstarfi. Ég sagði hér í nóvember og desember að ég teldi gott fyrir íslenska kjósendur að Sjálfstæðisflokkurinn fengi frí frá völdum,“ segir hún.
Hvernig eiga vinnubrögðin að vera?
Rósa telur að í ljósi atburða síðustu viku þá þurfi þingmenn að velta því fyrir sér hvernig vinnubrögð þeir vilji iðka í íslenskri pólitík. „Það hefur verið mikið ákall um ný vinnubrögð hér frá hruni. Þau áköll komu líka frá Rannsóknarskýrslu Alþingis og ég held að þetta sé mjög alvarleg áminning fyrir okkur að fara eftir þeim skýru línum sem þar komu fram og hlusta og hlýða á það ákall sem hefur verið í samfélaginu um ný vinnubrögð,“ segir hún.
Hún telur jafnframt að þingmönnum beri að kjósa samkvæmt sannfæringu sinni og að öllum þingmönnum sé hollt að íhuga þau gildi sem þeir eiga að starfa eftir.
Rósa vill ekki spá fyrir um það hvort ríkisstjórnin muni halda út kjörtímabilið. Hún segir að mikil áskorun felist í ríkisstjórnarsamstarfinu, þ.e. að leiða saman flokka á sitt hvorum ásnum. Það sé mikið og krefjandi verkefni.