Komum á bráðamóttöku Landspítalans í janúar og febrúar á þessu ári fjölgaði um rúmlega 500 eða 4,6 prósent frá síðasta ári. Alvarleg staða Landspítalans og bráðamóttökunnar var rædd á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku.
Álagið var svo mikið um miðjan febrúar að upplýsa þurfti heilbrigðisráðherra um alvarlega stöðu bráðamóttökunnar sem síðan upplýsti Embætti landlæknis. Þannig voru aðfararmótt 13. febrúar 63 sjúklingar á bráðamóttökunni, en rúmstæði þar eru fyrir 32 sjúklinga. Bið eftir læknisskoðun var þá allt að sex klukkustundir. Í minnisblaði sem ráðherra lagði fyrir ríkisstjórnina segir að það sé mat starfsfólks bráðamóttöku að við slíkar aðstæður sé ekki mögulegt að ábyrgjast öryggi allra þeirra sjúklinga sem þangað leita og aukin hætta verði á alvarlegum atvikum. „Bið eftir viðeigandi legurými hefur aldrei verið lengri heldur en þennan dag og hafa sjúklingar þurft að bíða í allt að fimm sólarhringa á bráðamóttöku eftir viðeigandi legurými á almennri deild. Vegna skorts á hjúkrunarfræðingum voru um 35 rými lokuð á spítalanum. Einnig hefur nýlega þurft að loka tveimur gjörgæslurýmum af sömu ástæðum.“
Hærra hlutfall þeirra sem leita á bráðamóttöku þurfa að leggjast inn, það er 11,3 prósent nú miðað við 10,7 prósent á sama tíma á síðasta ári. Þeir sem þurftu að leggjast inn á legudeild dvöldu að jafnaði 16 til 17 klukkustundir á bráðadeild eftir að innlögn hafði verið ákveðin en þessi bið var 13 til 14 klukkustundir í fyrra. Ástæða tafa á innlögn á almenna deild er skortur á rýmum.
Á fundi ráðuneytisins með Landspítala í febrúar var farið yfir stöðuna og möguleg viðbrögð og aðgerðir til að bregðast við vandanum. Það er mat spítalans að vandann megi helst rekja til tveggja þátta, skorts á hjúkrunarfræðingum og skorts á úrræðum fyrir sjúklinga með gilt færni- og heilsumat sem geta ekki útskrifast af spítalanum eftir meðferð. Erfiðlega hefur gengið að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa og því hefur þeim fækkað á stofnuninni. Helstu ástæðurnar fyrir því að ekki tekst að manna nægilega stöður hjúkrunarfræðinga eru taldar vera launakjör og vinnuálag.
Á síðasta ári var gripið til aðgerða til að auðvelda útskrift fólks sem lokið hefur meðferð, m.a. með opnun biðdeildar á Akranesi og auknum fjárframlögum til heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu. Þessi úrræði hafa ekki dugað til að tryggja útskriftir sjúklinga sem lokið hafa meðferð en ný hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu munu opna í lok árs 2018 og á árinu 2019. Gerir ráðuneytið ráð fyrir að ætla megi að dragi þá úr útskriftarvanda spítalans.
Það er mat spítalans að einnig sé nauðsynlegt að huga að því hvort hluti þeirra sjúklinga sem leita á bráðmóttöku geti fengið vanda sinn leystan annars staðar, þannig að innflæði sjúklinga á spítalann verði minna.