Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að þær launahækkanir sem hafa átt sér stað hjá N1, og einnig hjá stjórnendum hjá hinu opinbera, sýni þá miklu gjá sem sé komin milli launafólks og síðan stjórnenda.
Hann segir verkalýðshreyfinguna hafa beitt sér fyrir því að undanförnu að lífeyrissjóðirnir setji sér stefnu í launamálunum, meðal annars til að koma í veg fyrir að það myndist gjá milli fólksins á gólfinu og síðan stjórnenda.
Á Facebook síðu sinni hvetur Gylfi hluthafa N1, þar helst lífeyrissjóði, til að draga launahækkanir stjórnenda hjá félaginu til baka á aðalfundi félagsins sem fer fram á mánudaginn.
Eins og greint var frá fyrr í dag þá hafa lífeyrissjóðir sem eru í hluthafahópi félagsins lýst sig undrandi á því launaskriði sem verið hefur hjá félaginu. „Í starfskjarastefnu N1 hf. kemur fram að kjör forstjóra skuli vera samkeppnishæf og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans. Lífeyrissjóðurinn telur það orka mjög tvímælist hvort fjárhæð launa forstjóra og hækkun þeirra samræmist þessum viðmiðum og þeim sjónarmiðum sem hluthafastefna sjóðsins byggir á,“ segir í yfirlýsingu frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, sem er stærsti eigandi félagsins með 13,3 prósent hlut.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, var með tæpar 5,9 milljónir króna á mánuði í laun á síðasta ári. Heildarlaun hans á því ári námu 70,5 milljónum króna og hækkuðu um rúmlega 12 milljónir króna á árinu, eða um eina milljón króna á mánuði.
Gylfi hvetur til þess að skattar séu hækkaðir á há laun, og það sé séð til þess að svona miklar launahækkanir þeirra sem eru að stjórna fyrirtækjum séu ekki framkvæmdar þannig, að skattaafslættir getur leitt til þess, að í raun sé það almenningur sem borgi fyrir þær með því að veita skattaafslætti. „Annars vegar á að setja 65% hátekjuskatt á ofurtekjur með það að markmiði að ef stjórnir taki svona ákvörðun eigi lunginn af þeim að renna í ríkissjóð. Hins vegar þarf að setja skýr ákvæði um að fyrirtæki geti ekki dregið slík ofurlaun frá tekjum þegar kemur að útreikningi á tekjuskatti fyrirtækisins. Hluthafa verði einfaldlega að greiða þennan reikning sjálfir en ekki senda landsmönnum hluta hans með lækkun skattstofna!“ segir Gylfi.