Lífeyrissjóður verzlunarmanna, sem er stærsti eigandi hlutafjár í N1 með 13,3 prósent hlut, lýsir í yfirlýsingu undrun sinni á ákvörðun stjórnar N1 um launahækkun forstjóra félagsins. Sjóðurinn segir að sér hafi ekki verið kunnugt um þessa launahækkun fyrr en upplýsingar birtust í ársreikningi félagsins og í fjölmiðlum.
„Í starfskjarastefnu N1 hf. kemur fram að kjör forstjóra skuli vera samkeppnishæf og taka mið af hæfni, ábyrgð og umfangi starfans. Lífeyrissjóðurinn telur það orka mjög tvímælist hvort fjárhæð launa forstjóra og hækkun þeirra samræmist þessum viðmiðum og þeim sjónarmiðum sem hluthafastefna sjóðsins byggir á. “
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, var með tæpar 5,9 milljónir króna á mánuði í laun á síðasta ári. Heildarlaun hans á því ári námu 70,5 milljónum króna og hækkuðu um rúmlega 12 milljónir króna á árinu, eða um eina milljón króna á mánuði.
Eggert Þór tók við forstjórastarfinu í N1 í lok febrúar 2015. Hann hafði áður verið fjármálastjóri þess. Þegar Eggert Þór tók við forstjórastarfinu af Eggerti Benedikt Guðmundssyni, sem var sagt upp störfum, var sú uppsögn sögð vera liður í kostnaðarlækkun N1. Eggert Benedikt hafði verið með 55,9 milljónir króna í laun á árinu 2014, eða tæplega 4,7 milljónir króna á mánuði.
Í viðtali við Viðskiptablaðið í byrjun mars 2015 sagði Eggert Þór að það sæist í ársskýrslu félagsins að hann væri „ódýri forstjórinn“. Laun hans fyrsta árið sem hann sat í stóli forstjóra voru lægri en laun fyrirrennara sín. Heildarlaun hans á því ári voru 43,8 milljónir króna, eða tæplega 3,7 milljónir króna á mánuði. Í fyrra höfðu mánaðarlaun Eggerts Þórs hins vegar hækkað um 2,2 milljónir króna á tveimur árum og heildarlaun hans á ári um 26,7 milljónir króna á sama tíma.
Tillagan sem stjórn VR hyggst láta leggja fram hljóðar svo: „Aðalfundur N1, haldinn mánudaginn 19. mars að Dalvegi 10-14 Kópavogi, ályktar að öllum starfsmönnum N1 skuli tryggð sama kjarahækkun og forstjóri félagsins fékk á árinu 2017. Laun forstjóra voru á árinu 2017 70,4 m.kr., eða 5,8 m.kr. á mánuði, og hækkuðu þau um 20,6% milli áranna 2016 og 2017.“
Stjórnin segir að þar sem stærstu eigendur N1 séu lífeyrissjóðir launafólks hljóti það að vera eðlileg krafa að einmitt hið duglega launafólk sem þar starfi skuli einnig njóta ávaxtanna, „sérstaklega þegar svo vel gengur í starfsemi fyrirtækisins að það telur sæmandi að greiða forstjóranum sambærileg laun og launahæsta bankastjóra landsins.“