Markaðsvirði Facebook hefur hrunið í dag, eða um tæp 7 prósent. Markaðsvirði félagsins er nú rúmlega 500 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 50 þúsund milljarðar króna, og hefur verðmiðinn lækkað um 30 milljarða Bandaríkjadala í dag, eða um 3 þúsund milljarða króna.
Ástæðan fyrir lækkuninni er sögð, meðal annars í umfjöllun Wall Street Journal, vera ótti fjárfesta við að Facebook muni lenda í vandræðum vegna þess hve illa fyrirtækinu hefur gengið við að tryggja öryggi og notkun þriðja aðila á persónugögnum um notendur.
Um helgina greindi New York Times frá því, að greiningarfyrirtækið Cambridge Analytica, sem meðal annars vann náið með framboði Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefði safnað upplýsingum um 50 milljónir notenda í Bandaríkjunum, sem meðal annars voru nýttar til að ná betur til fólks í kosningaherferðum. Það var ekki gert í gegnum auglýsingar eingöngu, heldur með gervivefsíðum og notendum, þar sem litlu sem engu þurfti að fjárfesta í til að ná til fólks með skilaboð.
Á meðal stjórnarmanna Cambridge Analytica var fyrrverandi ráðgjaf Trumps, Steve Bannon.
Upplýsingunum var safnað saman í gegnum persónuleikapróf um 270 þúsund notenda, og söfnuðust einnig upplýsingar um vini þeirra sem tóku prófin.
Í yfirlýsingu frá Facebook segir að fyrirtækið hafi fengið enduskoðunarfyrirtæki til að skoða hvort Cambridge Analytica hafi notað gögnin eftir að farið var fram á að þeim yrði eytt, sem var árið 2015. Samkvæmt umfjöllun New York Times var gögnunum ekki eytt þá, og voru þau notuð meðal annars í þaulskipulögðum aðgerðum til að ná kosningaáróðri til fólks, raunar bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Facebook segir að ef það komi í ljós, að þetta hafi verið gert, þá sé það gróft brot á skilmálum sem fyrirtækið vinnur eftir þegar kemur að meðhöndlun upplýsinga um notendur.
Í umfjöllun Bloomberg segir að fjárfestar óttist hið versta, og að það komi í ljós að Facebook hafi brugðist þegar komið að öryggi notenda. Það geti svo leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir rekstur fyrirtækisins og framtíðaráform.