Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst kalla Sigríði Andersen dómsmálaráðherra á sinn fund til að ræða nýja reglugerð sem þrengir að túlkun reglna sem gilda um alþjóðlega vernd.
Þetta kom fram í svari Katrínar við fyrirspurn Loga Einarssonar formanni Samfylkingarinnar á Alþingi í morgun. Logi spurði Katrínu út í þessa nýju reglugerð, sem Rauði krossinn segir þrengja að túlkun um hvenær sérstakar ástæður eigi við í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd og hvenær beri að taka mál sérstaklega viðkvæmra einstaklinga til efnislegrar meðferðar.
Logi sagði dómsmálaráðherra hafa hunsað vilja löggjafans fullkomlega með nýrri reglugerð. „Veik börn sem áður hefðu átt möguleika á skjóli og öryggi verða nú send úr landi.“ Hann spurði hvað Katrínu fyndist um þessa reglugerð og sagði þetta „óforskammað, ómannúðlegt, kaldrifjað og hlýtur að vera ísköld vatnsgusa beint framan í Vinstri græn sem talað hafa fyrir meiri mannúð í þessum málaflokki. Nú reynir virkilega á hvort málflutningur þeirra eru bara orðin tóm.“
Katrín sagðist ekki hafa vitað af þessari reglugerð. Hún hafi óskað eftir samtali milli forsætisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins til að fara yfir gagnrýni Rauða krossins og hvernig sé rétt að bregðast við.
Rauði krossinn hefur gert alvarlegar athugasemdir við þröng skilyrði reglugerðarinnar sem eru fyrir því að taka megi umsókn til efnismeðferðar vegna heilsufarsástæðna. Hingað til hafi verið lagt einstaklingsbundið mat á heilsu umsækjenda og hvaða áhrif endursending hefur á heilsu þeirra, óháð því hvort heilbrigðiskerfi í viðtökuríki er í stakk búið til að veita viðkomandi fullnægjandi meðferð. Reglugerðin taki hins vegar fram í dæmaskyni að þeir einstaklingar sem geti fallið þarna undir séu umsækjendur sem glíma við mikil og alvarleg veikindi, gerð er krafa um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og að meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.
„Í kafla reglugerðarinnar sem fjallar um sérviðmið er varðar börn og ungmenni er tekið fram að þau viðmið sem komi fram í reglugerðinni (1. og 3-7. mgr.) eigi jafnframt við um börn. Þannig virðist gert ráð fyrir að börn sem eru haldin sjúkdómi sem ekki nær þeim alvarleikaþröskuldi að teljast skyndilegur og lífshættulegur skuli endursend til viðtökuríkis, jafnvel þó að foreldrar barnsins muni þurfa að greiða fyrir meðferð við sjúkdómnum í viðtökuríki, án þess að frekara mat fari fram á einstaklingsbundnum aðstæðum barnsins,“ segir í frétt Rauða krossins.
Rauði krossinn telur að efni nýrrar reglugerðar gangi að miklu leyti gegn almennri túlkun og skýringu á lögum um útlendinga, markmiðum þeirra og athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að núgildandi lögum um útlendinga. Þá feli ákvæði reglugerðarinnar í sér afturför og skerðingu á réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd.