Alls sóttu tólf um stöðu aðstoðarseðlabankastjóra sem auglýst var til umsóknar 21. febrúar síðastliðinn. Umsóknarfrestur rann út 19. mars. Á meðal þeirra sem sóttu um stöðuna er Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðrún Johnsen, hagfræðingur og fyrrverandi stjórnarmaður í Arion banka, Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, Ólafur Margeirsson hagfræðingur, Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, Rannveig Sigurðardóttir, staðgengill aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands og aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði og peningastefnu bankans, og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra hjá Seðlabanka Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef forsætisráðuneytisins.
Arnór Sighvatsson hefur tvívegis verið skipaður aðstoðarseðlabankastjóri og má ekki sækja aftur um starfið samkvæmt lögum. Þegar starfið var auglýst kom fram að umsækjendur skyldu hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum, og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Þá var gerð krafa um stjórnunarhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun skipa í starfið. Fyrst mun hún skipa nefnd til að meta hæfi umsækjenda, en niðurstaða hæfnisnefndar verður ráðgefandi fyrir forsætisráðherra.
Umsækjendurnir um starfið eru:
Daníel Svavarsson, hagfræðingur.
Guðrún Johnsen, hagfræðingur.
Stefán Hjalti Garðarsson, reikni- og fjármálaverkfræðingur.
Jón Þ. Sigurgeirsson, viðskiptafræðingur.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur.
Ludvik Elíasson, hagfræðingur.
Ólafur Margeirsson, hagfræðingur.
Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur.
Stefán Jóhann Stefánsson, hagfræðingur.
Tryggvi Guðmundsson, hagfræðingur.
Vilhjálmur Bjarnason, viðskiptafræðingur.
Þorsteinn Þorgeirsson, hagfræðingur.