Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir það ekki hafa komið á óvart, að skiptar skoðanir hafi verið um það meðal þingmanna að lækka kosningaaldur í 16 ár. Nú er útlit fyrir að málið nái ekki fram að ganga, en sjálf hefur hún flutt mál sem þetta í þinginu og barist fyrir lækkun kosningaaldurs og aukinni stjórnmálaþátttöku ungs fólks. „Hér ríkir málfrelsi meðal þingmanna. Þetta mál er ekki hluti af stjórnarsáttmála - meðal annars vegna þess að það voru um það deildar meiningar innan stjórnarflokkanna - heldur var þetta þingmannamál, en því er ekki að leyna, að ég hef verið fylgjandi lækkun kosningaaldurs almennt,“ segir Katrín. Hún segir það vera jákvætt að sjá stuðning myndast við mál, þvert á flokkslínur og meiri- og minnihluta, og það sé gott fyrir stjórnmálastarfið í landinu.
Eins og greint var frá í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, þá er útlit fyrir að frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár nái ekki fram að ganga fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor, en fyrir liggur að um 9 þúsund ungmenni bætast í hóp kjósenda nái málið fram að ganga.
Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, segir í viðtali við Kjarnann að eins og mælendaskráin líti út í þinginu sé útlit fyrir að umræðan um málið verði lengri en tími sé til að klára í dag. „Það þýðir að við náum ekki að klára málið fyrir páskahlé og þá er orðið hæpið að við náum að lækka kosningaaldur fyrir kosningarnar í vor.“
Á Alþingi hefur í dag staðið yfir málþóf þingmanna úr Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins til að tefja fyrir atkvæðagreiðslu um frumvarpið. Öruggur meirihluti er fyrir málinu á þingi, samkvæmt viðmælendum Kjarnans.
Málþóf þeirra gerir það hins vegar að verkum að ekki næst að greiða atkvæði um það. Það þýðir því að vilji minnihluta þingmanna nær fram að ganga, að minnsta kosti í bili, og 16 og 17 ára Íslendingar fá ekki að kjósa í sveitastjórnarkosningunum í lok maí líkt og stefnt var að.