Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins íhugaði að taka sæti á lista Viðreisnar fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Þetta kom fram í ítarlegu viðtali Áslaugar við Mannlíf sem kom út á föstudag og lesa má í heild sinni hér.
„Ég á vini í Viðreisn og til tals kom að ég tæki sæti á lista flokksins. Eftir að hafa íhugað málið ákvað ég að gera það ekki,“ sagið Áslaug, en hún verður ekki á lista Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Eyþóri Arnalds í oddvitakjöri og ekki boðið sæti neðar á lista af kjörnefnd flokksins í Reykjavík.
Viðreisn birti lista sinn á mánudag þar sem fram kom að Þórdís Lóa Þórhallsdóttir rekstrarhagfræðingur muni leiða lista flokksins. Pawel Bartoszek stærðfræðingur er í öðru sæti og Diljá Ámundadóttir, almannatengill og varaborgarfulltrúi, er í þriðja sætinu.
Í viðtalinu segir Áslaug Pawel vera mjög vera mjög sterkan hægri mann sem bjóði sig fram nú í kosningunum og að hann eigi svo sannarlega erindi í borgarstjórn. „Hann er því miður farinn úr okkar flokki. Hann er með mjög líka sýn og þá sem var að þróast hjá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma og skrif hans sýna að hann hefur góðar hugmyndir í mörgum öðrum málum. Að missa mann eins og hann er auðvitað mjög leiðinlegt.
Fjöldi fólks hefur snúið baki við Sjálfstæðisflokknum af þessum og öðrum sökum á undanförnum misserum. Skemmst er að minnast stofnunar Viðreisnar þar sem finna má ógrynni af fyrrverandi sjálfstæðismönnum, oft með einhverjar skoðanir sem þóttu ekki heppilegar innan Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður flokksins leiðir nú Viðreisn og áðurnefndur Pawel Bartoszek, auk annarra.