Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur rekið sextíu rússneska diplómata úr landi og lokað sendiráðsskrifstofu Rússlands í Seattle. Aðgerðir forsetans má rekja til eiturgasárásar á gagnnjósnarann Sergei Skripal í Salisbury í Bretlandi. Um er að ræða 48 diplómata í Washington sem og 12 Rússa á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Þá hafa fjórtán þjóðir innan Evrópusambandsins vísað rússneskum erindrekum úr landi. Þýskaland, Frakkland og Pólland munu reka fjóra rússneska diplómata hvert úr sínu landi, auk Litháen og Tékklands sem ætla að senda þrjá rússneska diplómata heim og Danmörk, Ítalía og Holland tvo.
Andres Samuelsson utanríksiráðherra Danmerkur lýsti yfir samstöðu með Bretum þegar tilkynnt var um aðgerðirnar.
Að auki mun Úkraína, sem ekki er Evrópusambandsríki, senda þrettán rússneska diplómata úr landi og Kanda fjóra.
Bretar hafa vísað 23 rússneskum diplómötum úr landi eftir að eitrunin fór fram og Rússar svöruðu í sömu mynt með því að senda sama fjölda breskra diplómata frá sér.
Ekki hafa fengist svör frá íslenskum stjórnvöldum um hvort og hvaða skref verða tekin af þeirra hálfu vegna málsins.