Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort eða með hvaða hætti brugðist verði við hækkun veiðigjalda á yfirstandandi fiskveiðiári.
Hann segir einnig að af fyrirliggjandi gögnum verði ekki ráðið að afkoma sé lakari hjá litlum og meðalstórum útgerðum en stærri útgerðum líkt og oft er fullyrt í opinberri umræðu. Þetta sé til dæmis staðfest í nýlegri skýrslu endurskoðunarskrifstofunnar Deloitte um rekstur sjávarútvegsfélaga á árinu 2016 og áætlaða þróun rekstrar þeirra á árinu 2017.
Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs við fyrirspurn frá Sigurði Páli Jónssyni, þingmanni Miðflokksins, um veiðigjöld.
Verða rúmlega tíu milljarðar í ár
Hæstu veiðigjöldin greiddi sjávarútvegurinn vegna fiskveiðiársins 2012/2013, en þá greiddi útgerðin 12,8 milljarða króna í ríkissjóð vegna veiðigjalda. Árin þar á eftir lækkuðu gjöldin skref fyrir skref niður í 4,8 milljarða árið 2016.
Í fyrra innheimti ríkissjóður sex milljarða króna í veiðigjöld en samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir því að þau skili rúmum tíu milljörðum króna í ár.
Samkvæmt nýlegri spá, sem gerð var fyrir stjórnvöld, segir að tekjur sjávarútvegs hafi dregist saman úr 249 milljörðum króna árið 2016, sem var metár, í 240 milljarða króna í fyrra.
Samanlagðar arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja frá byrjun árs 2010 og út árið 2016 voru 65,8 milljarðar króna. Eigið fé þeirra frá hruni og til loka árs 2016 batnaði um 300 milljarða króna. Því hefur hagur sjávarútvegarins vænkast um 365,8 milljarða króna á örfáum árum.
Kallaði veiðigjöld „hátekjuskatt á sterum“
Mikill þrýstingur hefur verið frá útgerðarfyrirtækjum á stjórnvöld um að lækka veiðigjöld. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, sagði við Morgunblaðið í upphafi árs að gjöldin væru allt of há. „Við erum að áætla að árið 2018, miðað við óbreytt veiðigjald eins og fjárlög fóru í gegnum þingið, verði skattur 58 til 60 prósent af hagnaði[...]Þetta verður hátekjuskattur á sterum þetta árið og gjaldtakan er komin langt fram úr hófi. Hún verður beinlínis skaðleg sjávarútvegi og þar með samfélaginu öllu.“
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í ræðu sem hann flutti á aðalfundi Síldarvinnslunnar síðastliðinn miðvikudag og var birt á vef fyrirtækisins að hann vilji
að íslenskur sjávarútvegur fái að dafna í framtíðinni og njóta sannmælis sem atvinnugrein. Hann sagði í ræðunni að veiðigjöld taki ekki mið af aðstæðum í umhverfi greinarinnar heldur þegar aðstæður hafi verið allt aðrar og betri. Þorsteinn er stjórnarformaður Síldarvinnslunnar og Samherji er stærsti einstaki eigandi hennar.
Hagnaður Síldarvinnslunnar árið 2017 var 2,9 milljarðar króna. Samherjasamstæðan, sem starfar á sviði sjávarútvegs bæði hérlendis og erlendis, hagnaðist um 86 milljarða króna á árunum 2010-2016. Árið 2016 var hagnaður hennar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 17 milljarðar króna.