Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna efnavopnaárásar í enska bænum Salisbury í upphafi mánaðarins.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórnvöldum, en eins og greint var frá að vef Kjarnans í dag, þá fundaði ríkisstjórnin um málið í dag.
Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum segir: „Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og ógnun við öryggi og frið í Evrópu. Efnavopnum hefur ekki verið beitt í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Viðbrögð rússneskra stjórnvalda við árásinni hafa hingað til verið ótraustvekjandi og yfirlýsingar þeirra ótrúverðugar. Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mörg samstarfsríki Íslands í Atlantshafsbandalaginu, og helstu aðildarríki Evrópusambandsins hafa ákveðið að grípa til aðgerða gagnvart rússneskum stjórnvöldum. Í flestum tilvikum vísa þessi ríki rússneskum stjórnarerindrekum úr landi. Af hálfu Íslands felast aðgerðirnar í því að öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum verður frestað um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskir ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi á komandi sumri,“ segir í yfirlýsingunni, en eins og kunnugt er verður Ísland meðal þátttökuþjóða á HM, í fyrsta skipti og sem fámennsta landið í sögunni sem tryggt hefur sér þátttökurétt á HM.
Eftir að hafa borið ákvörðun ríkisstjórnarinnar undir utanríkismálanefnd Alþingis kallaði Guðlaugur Þór sendiherra Rússlands á sinn fund nú síðdegis og greindi honum frá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Á síðustu tíu árum hefur viðskiptasamband Íslands og Rússlands styrkst nokkuð, einkum vegna vaxandi viðskipta íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja með makríl. Alþjóðapólitískar deilur, þar sem alþjóðasamfélagið hefur beitt Rússa refsiaðgerðum, hafa harnað verulega á undanförnum árum, með töluverðum áhrifum á íslenska hagsmuni.
Frá í ágúst 2015 hafa Rússar beitt viðskiptabanni gagnvart Íslandi, en um 20 milljarða markaður, árlega, hafði þá myndast með íslenskar sjávarafurðir. Frá þeim tíma hefur markaðurinn hins vegar verið lokaður. „Frá þessari stundu mun bann á matvælum sem áður náði til Evrópusambandsins, Ástralíu, Kanada, Noregs og Bandaríkjanna einnig ná til Albaníu, Svartfjallalands, Íslands, Liechtenstein og Úkraínu,“ sagði Dmitry Medvedev forsætisráðherra Rússland, þegar viðskiptabannið var sett árið 2015, og bætti því við að þessi ríki hefðu stutt við viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins gegn Rússum. Viðskiptabannið er enn í gildi.
Aðgerðir Íslands nú eru í takt við fyrri stefnu Íslands í málum sem tengjast Rússum, en þar hefur Íslands fylgt samþykktum Evrópuþjóða og bandalagsríkja. Norðurlöndin og fleiri þjóðir gripu þó að þessu sinni til þess að senda rússneska ráðamenn úr landi, en það gerði Ísland ekki, eins og áður sagði.