Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri var með 22,9 milljónir króna í heildarlaun og þóknanir á síðasta ári. Greiðslur til hans hækkuðu um 5,7 milljónir króna í fyrra, eða um 33 prósent. Heildarlaun og þóknanir útvarpsstjóra voru 1,9 milljónir króna á mánuði að meðaltali árið 2017. Þetta kemur í ársreikningi RÚV sem birtist í dag.
Kjarnanum hefur borist árétting frá RÚV þar sem fram kemur að á árinu 2016 hafi útvarpsstjóri tekið fæðingarorlof sem lækkaði heildargreiðslur launa á því ár. Því gefi samanburður milli launa á árunum 2016 og 2017 ekki rétta mynd af launaþróun. Stjórn RÚV hafi ákveðið að hækka laun útvarpsstjóra á árinu 2017 úr 1.550 þúsund krónum á mánuði í 1.800 þúsund krónur, eða um 16 prósent.
Laun stjórnarmanna í RÚV hækkuðu um 21 prósent á milli ára.
Lögum um kjararáð var breytt undir lok árs 2016 og tóku þær breytingar gildi um mitt síðasta ár. Um var að ræða frumvarp sem formenn sex flokka á Alþingi stóðu að. Formennirnir sex voru Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisflokki, sem einnig var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Katrín Jakobsdóttir Vinstri grænum, Logi Einarsson Samfylkingu, Óttarr Proppé Bjartri framtíð, Sigurður Ingi Jóhannsson Framsóknarflokki og og Benedikt Jóhannesson Viðreisn.
Eini flokkurinn sem þá átti sæti á þingi og var ekki með á frumvarpinu voru Píratar. Þingmenn flokksins greiddu hins vegar atkvæði með lögunum þegar þau voru samþykkt í atkvæðagreiðslu 22. desember 2016.
Tilgangur frumvarpsins var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu. Einn þeirra er Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri.
Hunsuðu tilmæli
Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins í janúar 2017 var þeim tilmælum beint til þeirra að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færðust undan kjararáði um mitt ár í fyrra. Þar stendur að ástæða hafi verið til þess að „vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Æskilegt er að launaákvarðanir séu varkárar, að forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun.“
Fleiri ríkisforstjórar hafa hækkað mikið
Um þessar mundir eru flest stærri fyrirtæki landsins að birta ársreikninga sína. Þeirra á meðal eru fyrirtæki í eigu ríkisins. Áður en ofangreind breyting á lögum um kjararáð tók gildi voru ákvarðanir um laun æðstu stjórnenda þeirra tekin af kjararáði, en það vald var fært aftur til stjórna þeirra með breytingunni.
Í nýbirtum ársreikningi Landsvirkjunar kom til að mynda fram að Hörður Arnarson, forstjóri fyrirtækisins, hafi fengið 32 prósenta launahækkun á síðasta ári þegar leiðrétt hefur verið fyrir gengissveiflum, en reikningar Landsvirkjunar eru gerðir upp í Bandaríkjadölum þótt laun séu greidd í krónum. Án slíkrar leiðréttingar nam hækkunin 45 prósent. Mánaðarlaun hans fóru úr tveimur milljón krónum á mánuði í 2,7 milljónir króna. Landsvirkjun segir að þetta vegna þess að laun forstjórans hafi verið lækkuð svo mikið árið 2012.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspóst, hefur einnig notið góðs af þessum breytingum. Laun hans hækkuðu um 17,6 prósent á síðasta ári og mánaðarlaun hans eru nú 1,7 milljónir króna.
Annar forstjóri sem færðist undan kjararáði í fyrra er Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Laun hans hækkuðu um tvær milljónir króna í fyrra og námu heildarlaun hans á ársgrundvelli 21,7 milljónum króna, eða um 1,8 milljónum króna á mánuði. Það er hækkun um rúm tíu prósent.
Enn eiga ýmis fyrirtæki sem eru að hluta eða öllu leyti í eigu ríkisins, og laun forstjóra þeirra heyrðu áður undir kjararáð en eru nú ákvörðuð af stjórnum, eftir að skila ársreikningum. Þar má m.a. nefna Isavia, RARIK og Matís. Því liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um launaþróun forstjóra eða forstöðumanna þeirra á síðasta ári.