Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, hefur lagt fram fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um kostnað við rekstur kjararáðs. Þorsteinn vill fá að vita hver árlegur kostnaður var á árunum 2014-2017, hverjar greiðslur til kjaráðsmanna voru sundurliðaðar á hvern ráðsmann eftir árum og hvernig þóknun til ráðsmanna í kjararáði er ákveðin. Þá vill hann fá upplýsingar um hver aðkoma fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ákvörðunum um laun kjararáðs sé og hver launakostnaður ráðsins var á ofangreindum árum annar en þóknun til ráðsmanna.
Kjararáð hefur ekki viljað upplýsa um hvað þeir sem í ráðinu sitja eru með í heildarlaun, en Fréttablaðið hefur kallað eftir þeim upplýsingum.
Kjararáð er sjálfstætt ráð sem er falið það verkefni að ákveða laun og starfskjör æðstu embættismanna ríkisins. Kjararáð er skipað fimm ráðsmönnum og fimm til vara. Þrír eru kosnir af Alþingi, Hæstiréttur skipar einn og fjármála- og efnahagsráðherra einn. Kjararáðsmenn eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Í kjararáði sitja Jónas Þór Guðmundsson, formaður kosinn af Alþingi, Óskar Bergsson, varaformaður kosinn af Alþingi, Svanhildur Kaaber, kosin af Alþingi, Jakob R. Möller, skipaður af Hæstarétti, og Hulda Árnadóttir, skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra.
Lagt til að ráðið verði lagt niður
Launahækkanir sem kjararáð hefur veitt æðstu embættismönnum þjóðarinnar, og öðrum háttsettum opinberum starfsmönnum, hafa valdið mikilli úlfúð á undanförnum árum. Í sumum tilfellum hafa verið um að ræða tugprósenta hækkanir.
Kjararáð fékk launahækkun
Kjarninn greindi frá því í byrjun mars að kjararáð hafi ekki einungis hækkað laun þeirra sem það úrskurðar um, heldur hafi ráðið einnig sóst eftir, með bréfi sem var sent 14. september 2017, að hækka eigin laun með vísun í hækkun á launavísitölu Hagstofu Íslands, sem hafði hafði m.a. hækkað vegna ákvarðana kjararáðs. Hækkunin átti líka að vera afturvirk til 1. ágúst 2017. Jónas Þór Guðmundsson, formaður kjararáðs, sendi bréfið.
Bréfinu var ekki svarað í rúman tvo og hálfan mánuð. Benedikt Jóhannesson, sem var fjármála- og efnahagsráðherra þegar bréfið var sent, sagði nýverið á Facebook-síðu sinni að viðbrögð hans við bréfinu hefðu verið eftirfarandi: „Ég fór að skellihlæja og hristi höfuðið. Það var ekki tilviljun að kjararáð fékk ekki afturvirka launahækkun meðan ég var ráðherra.“
Í millitíðinni fóru fram kosningar og 30. nóvember 2017 tók ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við valdataumunum á Íslandi. Í fjármála- og efnahagsráðuneytið settist Bjarni Benediktsson. Sex dögum eftir að hann tók við embætti, þann 6. desember, barst Jónasi svarbréf frá ráðuneytinu. Í því var honum greint frá að fallist hafði verið á tillögu hans um launahækkun kjararáðs og að hún myndi gilda frá 1. ágúst 2017.