Skráð félög í Kauphöll Íslands keyptu samtals eigin bréf fyrir 39,1 milljarð króna á árunum 2015-2017. Langmest var um endurkaup í fyrra, á árinu 2017, þegar félögin keyptu alls eigin bréf fyrir 19,1 milljarð króna. Árið 2016 námu endurkaupin 10,7 milljörðum króna.
Með endurkaupum á bréfum er vísað til kaupa félaga á eigin bréfum, sem fækkar hlutum í því og eykur hlutfallslega stærð annarra eigenda. Í þeim felst þar af leiðandi tilfærsla af fé úr rekstri félaga til hluthafa.
Önnur leið til að færa slíkt fé til hluthafa er með því að greiða arð. Þá þarf hins vegar að greiða fjármagnstekjuskatt við útgreiðslu hans.
Skráð félög í Kauphöll Íslands hafa annað hvort, eða ætla að greiða út, 14,2 milljarða króna í arð það sem af er árinu 2017 vegna frammistöðu síðasta árs. Hagar eiga enn eftir að skila ársreikningi þar sem rekstrarár þess félags er ekki almanaksárið líkt og hjá öðrum skráðum félögum.
Arðgreiðslurnar voru um 18 prósent lægri en þær voru á árinu 2016 þegar þær voru 19,6 milljarðar króna.
Arðgreiðslur skráðra félaga náðu eftirhrunshámarki á árunum 2015 og 2016. Á hvoru ári fyrir sig fengu hluthafar greidda 19,6 milljarða króna.