NATO hyggst senda sjö rússneska erindreka heim úr höfuðstöðvunum í Brussel, og með því sína samstöðu með Bretum og fleiri þjóðum, Íslendingum þar á meðal, sem hafa tekið þátt í þvingunaraðgerðum gegn Rússum að undanförnu.
Ástæðan er taugaeitursárásin á njósnarann Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi en þau liggja þungt haldin á sjúkrahúsi.
Jens Stoltenberg sagði í tilkynningu sinni að hann myndi einnig koma í veg fyrir að þrír Rússar fengju starf hjá NATO, og því mun rússneskum erindrekum fækka úr 30 í 20. Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga og lögðu hann undir sig, hafa nú 60 Rússar verið sendir frá NATO.
Rússar hafa harðlega mótmælt aðgerðunum sem beinast gegn þeim, og hafa þeir sakað Breta og Bandaríkjamenn um að grafa undan samstöðu í Evrópu. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra, segir allt sé nú breytt í samskiptum Rússa við aðrar þjóðir og allt traust farið. Hann, og stjórnvöld í Rússlandi, hafa neitað því eindregið að standa að baki árásinni og segir að Rússar muni svara fyrir sig.
[BREAKING]: I have withdrawn the accreditation of 7 staff at #Russia’s Mission to #NATO & will deny the accreditation request for 3 others - SG @jensstoltenberg pic.twitter.com/ARx9GbQ759
— Oana Lungescu (@NATOpress) March 27, 2018
Nú þegar eru í gildi efnahagsþvinganir gagnvart Rússum, og hafa eignir valinna rússneskra fjárfesta verið frystar víða um heim, meðal annars í Bandaríkjunum. Rússar hafa brugðist við þessu með viðskiptabanni á þjóðir, þar sem innflutningsbann hefur verið sett á matvæli og fleiri vörur. Frá því árið 2015 hefur það verið í gildi, meðal annars gagnvart Íslandi. Á undanförnum árum hafa viðskipti Íslands og Rússlands farið vaxandi, einkum með makríl og aðrar sjávarafurðir, og hefur umfangið farið mest í um 20 milljarða á ári.