Ekkert mat fór fram á því hvort að efni skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varðaði almannahag. Ástæða þess var sú að skýrslan var unnin að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og því var birting hennar „því algerlega án utanaðkomandi kvaða eða mats á því hvort þær ættu við samkvæmt siðareglum.“
Þetta kemur fram í svari Bjarna við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um birtingu gagna sem var birt á vef Alþingis í dag.
Samkvæmt siðareglum ráðherra á ekki að leyna upplýsingum sem varða „almannahag nema lög bjóði eða almannahagsmunir krefjist þess að öðru leyti“. Í svari Bjarna kemur fram að hann telur siðareglur ráðherra ekki eiga við um birtingu skýrslunnar.
Björn Leví spurði einnig hvaða verklagsreglur gildi um birtingu gagna sem fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur og varða almannahag. Í svarinu segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið kappkosti að birta almenningi „allt það efni sem því ber skylda til og annað efni sem það hefur undir höndum bæði á vefsíðu ráðuneytisins og öðrum vefjum, svo sem á opnirreikningar.is, ríkisreikningur.is og rsk.is, í fréttatilkynningum og á hvern þann hátt sem talinn er heppilegastur hverju sinni.“
Skýrslan tilbúin í október en ekki birt fyrr en í janúar
Í byrjun janúar 2017 var gerð opinber skýrsla starfshóps sem skoðaði umfang aflandseigna Íslendinga og áætlaði hversu miklu eigendur slíkra eigna hefðu stungið undan skatti.
Skýrslan var unnin sem viðbragð við opinberun Panamaskjalanna svokölluðu. Bjarni Benediktsson, þáverandi og núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, greindi frá því í maí 2016 að sérstöku teymi, með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga, yrði falið að „gera mat á umfangi fjármagnstilfærslna og undanskota á aflandssvæðum samhliða því að áætla tekjutap hins opinbera af slíkri starfsemi.[...]Við höfum skyldur til þess að draga fram og skýra hvert umfang skattsvikanna var. Hvert er umfang vandans? Hversu mikið tapast? Hversu algengt var að þetta félagaform, þessi lönd, þessi svæði, væru nýtt til þess að skjóta sér undan íslenskum lögum? Það finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að kanna. Mér finnst það frumskylda okkar að gefnu þessu tilefni núna að taka það út sérstaklega og verður það meginverkefni þessa sérstaka teymis sem ég hyggst fela þetta hlutverk þannig að við getum haft betri grundvöll undir umræðu um umfang vandans.“
Skýrslan var kynnt fyrir Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, í byrjun október sama ár, nokkrum vikum fyrir kosningar sem fram fóru undir lok þess mánaðar.
Skýrslan var hins vegar ekki birt fyrr en 6. janúar, eftir að Kjarninn hafði ítrekað spurst fyrir um afdrif hennar.
Svandís sendi skriflega fyrirspurn til umboðsmanns
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi þingflokksformaður Vinstri grænna og núverandi heilbrigðisráðherra, óskaði eftir því skriflega í fyrra að umboðsmaður Alþingis myndi fjalla um hvort Bjarni hefði brotið gegn 6. grein siðareglna ráðherra með því að birta ekki skýrslu um aflandsfélög fyrr en nokkrum vikum eftir að hún lá fyrir.
Umboðsmaður tilkynnti síðar um að ekki væri tilefni til að taka til athugunar hvort Bjarni hefði brotið gegn siðareglum ráðherra með því að birta ekki skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum fyrr en raun bar vitni.
Ástæðan var fyrst og fremst að Bjarni hafði viðurkennt að það hafi verið mistök af hans hálfu að birta ekki skýrsluna mun fyrr en gert var.